Óvissa um skyldur stjórnenda í metoo-málum

31.10.2019 - 13:59
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Lögmaður Borgarleikhússins segir dóm héraðsdóms í máli Atla Rafns Sigurðarsonar skapa óvissu um skyldur stjórnenda á almennum vinnumarkaði þegar mál af þessu tagi komi upp.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Leikfélag Reykjavíkur og Kristínu Eysteinsdóttur leikhússtjóra Borgarleikhússins til að greiða Atla Rafni Sigurðarsyni leikara 5,5 milljónir króna í bætur vegna ólögmætrar uppsagnar. Það var mat dómsins að ekki hafi verið farið að reglum þegar Atla Rafni var sagt upp vegna kvartana sem höfðu borist vegna kynferðislegrar áreitni. Kristín segist ekki ætla að tjá sig um dóminn, en vísar á lögmann leikfélagsins. Ákveðið hefur verið að áfrýja dóminum.

„Já, ákvörðun um áfrýjun málsins byggir á tveimur sjónarmiðum. í fyrsta lagi eru umbjóðendur mínir ósammála niðurstöðu dómsins og þá telja þeir líka að niðurstaðan skapi óvissu um skyldur atvinnurekenda og stjórnenda á almennum vinnumarkaði þegar við kemur öryggi starfsmanna á vinnustað, vellíðan þeirra þegar þessi viðkvæmu mál koma upp,“ segir Sigurður Örn Hilmarsson, lögmaður Leikfélags Reykjavíkur. Hann segir niðurstöðuna hafa komið á óvart.

„Já, hún gerir það. Fyrst og fremst af þeirri ástæðu að í forsendum dómsins er að mati minna umbjóðenda ekki litið til hagsmuna annarra starfsmanna á vinnustaðnum, það er að segja þeirra sem kvartað höfðu undan kynferðislegri áreitni og upplifðu vanlíðan á vinnustað. Þeir leituðu til trúnaðarmanns á vinnustaðnum og stjórnenda og það var ekki tillit til hagsmuna þessara aðila, heldur einungis einblínt á hagsmuni starfsmannsins sjálfs og réttinda hans.“

Að mati Sigurðar Arnar er þetta prófmál varðandi ásakanir af þessu tagi. Formaður Félags íslenskra leikara segist vera að skoða niðurstöðu gærdagsins.

Áhugavert að sjá hvernig málinu lýkur

„Ég er nú bara að melta þetta. Ég er stödd hérna á fundi norræna leikararáðsins þar sem þetta mál er meðal annars til umfjöllunar. Það er auðvitað áhugavert að sjá hvernig þessu máli lyktar,“ segir Birna Hafstein formaður Félags íslenskra leikara.

„Hvort að Landsréttur telji Borgarleikhúsinu skylt að starfa eftir sömu reglum og opinberum stofnunum, starfandi á almennum markaði og fjármagnað af stórum hluta með almannafé. Það verður áhugavert að sjá hvernig það fer því Borgarleikhúsið er ekki eitt um þess konar rekstrarfyrirkomulag.“

Birna minnir á að félagið sé ekki aðili að málinu. Hún segir málið til umræðu meðal norrænna leikara.

„Auðvitað er gott að fólk leitar réttar síns þegar það telur á sér brotið,“ segir Birna. „En það er áhugavert að einhverjir sem koma að þessu máli sem treysta sér ekki geta leitað réttar síns samkvæmt lögformlegum leiðum. Maður þarf aðeins að hugsa af hverju er það?“

Þar vísar Birna til þeirra sem báru Atla Rafn sökum. En hver er staða leikhússtjórans eins og mál standa?

„Það er erfitt fyrir mig að segja til um það. Ég held að það sé ótrúlega snúið að meintir þolendur og meintir gerendur saman á vinnustað, jafnvel í sömu stéttarfélögum, og ég vísa nú ekki bara í þetta mál. Svo ég held að þetta sé bara mjög snúið,“ segir Birna.

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi