Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Óvissa um legu Reykjanesbrautar við álver

02.03.2017 - 19:26
Mynd með fréttaskýringu
 Mynd: ruv - Ruv
Skriður virðist vera að færast á framkvæmdir við Reykjanesbraut, en eftir er að ljúka við tvöföldun leiðarinnar við báða enda, í Hafnarfirði og að flugvellinum í Keflavík. Framkvæmdir við mislæg gatnamót Krísuvíkurvegar hefjast í sumar , en bæjaryfirvöld í Hafnarfirði vilja nú viðræður við samgönguráðherra og Vegagerðina um áframhald framkvæmda innan bæjarmarkanna. Eitt af því sem flækir málið hins vegar er að samkvæmt gildandi aðalskipulagi þarf að færa Reykjanesbrautina nálægt Straumsvík.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar sendi nýlega frá sér tilkynningu þar sem áréttuð var þörfin á að marka „heildarstefnu varðandi vegabætur á stofnvegakerfi sem liggur í gegnum Hafnarfjörð.“ Bent var á að framkvæmdir við mislæg gatnamót Krísuvíkurvegar og Reykjanesbrautar væru sannarlega skref í rétta átt, en að meira þyrfti til. „Á þessum kafla, sem um ræðir í Hafnarfirði, eru átta gatnamót; tvö mislæg, þrjú T-gatnamót og tvö hringtorg sem eru orðin mikil slysagildra,“ segir í tilkynningunni, en þar er átt við hringtorgin við Setberg og Kaplakrika, þar sem umferð hefur tvöfaldast á undanförnum tíu árum. 

Sú gríðarmikla fjölgun ferðamanna sem orðið hefur á undanförnum árum er að sjálfsögðu undirliggjandi ástæða þess að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði vilja umbætur á stofnvegakerfinu - einfaldlega vegna þess að nánast allir ferðamenn sem koma til landsins fara þessa leið frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur. Árið 2010 komu um 459 þúsund ferðamenn til landsins; í fyrra voru þeir um 1,8 milljónir. Slysatíðni er einnig áhyggjuefni; bæði innanbæjar í Hafnarfirði, sem og á Reykjanesbraut þar sem ítrekað hafa orðið alvarleg slys. 

Mynd úr safni. - Mynd: RUV / RUV

Lega Reykjanesbrautar við álverið í Straumsvík

Framkvæmdir hefjast í sumar við mislægu gatnamótin við Krísuvíkurveg og þeim á að vera lokið í haust samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Af samtölum við þá sem þekkja til, má ráða að næsta skrefið í framkvæmdum þarna verði að ljúka við tvöföldun frá þessum gatnamótum upp að kirkjugarðinum í Hafnarfirði. Þá er eftir að ljúka tvöföldun frá Krísuvíkurgatnamótunum í suðurátt, að þeim kafla Reykjanesbrautar sem búið er að tvöfalda. Vandinn þar er hins vegar að á gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar er búið að færa Reykjanesbrautina fjær álverinu í Straumsvík. Sú færsla er arfleifð frá þeim tíma þegar til stóð að stækka álverið - en stækkunin var hins vegar slegin út af borðinu í íbúakosningu í Hafnarfirði árið 2007. „Það hefur engin umræða verið um að breyta aðalskipulaginu hvað varðar Reykjanesbrautina,“ segir Haraldur Líndal bæjarstjóri í Hafnarfirði, „en við munum að sjálfsögðu ræða það við ríkisvaldið og Vegagerðina þegar að því kemur.“

 

Hluti af aðalskipulagi Hafnarfjarðar sem sýnir fyrirhugaða legu Reykjanesbrautar fjær álverinu en nú er.
Hluti aðalskipulags Hafnarfjarðar, þar sem sést lega Reykjanesbrautar fjær álverinu en nú er.  Mynd: Hafnarfjarðarbær

Mislæg gatnamót í stað hringtorga

Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa mikinn áhuga á að ræða mögulegar endurbætur á hringtorgunum við Setberg og Flatahraun, enda eru þetta þau tvö hringtorg á landinu með hæstu slysatíðnina á höfuðborgarsvæðinu. Einnig er bent á að umferðin eftir Reykjanesbraut sé orðið það mikil að íbúar í Setbergi eigi erfitt með að komast leiðar sinnar; það þýði aukna umferð í gegnum hverfið sjálft, með tilheyrandi hættu fyrir íbúa þar. Rætt hefur verið um ljósastýringu á hringtorgin sem lausn til bráðabirgða, en ljóst er að mjög dýrt verður að byggja mislæg gatnamót á þessum stöðum; lægsta tilboðið í Krísuvíkurgatnamótin hljóðaði upp á tæpar 920 milljónir króna. 

Vill ræða vegatolla til að fjármagna framkvæmdir

Jón Gunnarsson samgönguráðherra skipaði nýlega starfshóp til að fjalla um möguleikann á fjármögnum vegaframkvæmda til að bæta stofnleiðir út frá höfuðborgarsvæðinu; Suðurlandsveg austur fyrir Selfoss, Reykjanesbraut frá Kaplakrika í Hafnarfirði að Keflavíkurflugvelli og Vesturlandsveg að Borgarnesi. Einn möguleikinn sem verður skoðaður er vegatollar. „Þessi umræða um Reykjanesbraut hangir saman við þá vinnu sem við höfum sett af stað í starfshópnum og munum skila í vor, varðandi mögulega gjaldtöku á ákveðnum leiðum,“ sagði Jón í samtali við RUV í dag. „Ef í slíkt yrði ráðist værum við að tala um fullnaðarfrágang á Reykjanesbraut frá Keflavíkurflugvelli í gegnum Hafnarfjörð. Markmiðið er að vinna upp svokallaðar sviðsmyndir til að sjá hvort þetta er hægt. Þessar leiðir eru valdar vegna mikillar aukningar á straumi ferðamanna; markmiðið er að athuga hvort þessi umferð getur tekið þátt í kostnaðinum við umbætur, því þá þyrftum við ekki að binda opinbert fé í dýrum framkvæmdum, heldur gætum við nýtt það annars staðar á landinu,“ segir Jón. 

 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV