Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Óvissa um framhald IPA-verkefna

03.12.2013 - 22:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Styrkjum til allra IPA-verkefna á Íslandi verður hætt af hálfu Evrópusambandsins. Utanríkisráðherra segir þetta koma á óvart.

Skrifstofa stækkunarmála framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hefur ákveðið að styrkjum við öll IPA-verkefni sem hafin voru á Íslandi verði hætt. IPA-styrkjum var ætlað að styðja við verkefni í tengslum við aðild Íslendinga að ESB en í ljósi breyttrar stefnu stjórnvalda, telur framkvæmdarstjórnin ekki vera forsendur fyrir frekari styrkveitingum.

Utanríkisráðherra segir að ákvörðunin hafi verið tekin einhliða og án fyrirvara og komið Íslendingum í opna skjöldu. „Það eru engin skilyrði í þessum samningum um að aðildarviðræðum skuli haldið áfram, þvert á móti hefur komið fram að menn eru ekki krafnir um endurgreiðslu og þess háttar. Síðan hefur líka komið fram í okkar viðræðum við Evrópusambandið að þeir líti svo á að það sé eðlilegt að halda áfram og klára þessi verkefni. Starfsmenn utanríkisþjónustunnar hafa fundað með þeim, meðal annars núna á haustmánuðum, um hvernig megi ljúka þessum verkefnum sem eru í gangi, þannig að þetta kemur algjörlega flatt upp á okkur að framkvæmdarstjórnin skuli taka þessa ákvörðun algjörlega einhliða.“ 

Gunnar Bragi segir óvíst um framhald þeirra verkefna sem þegar voru hafin. Hann segir ákvörðun framkvæmdarstjórnarinnar ekki til þess fallna að styrkja samband Íslendinga við Evrópusambandið. „Ég hef trú á að þetta verði ekki Evrópusambandinu til góða á Íslandi, ég held að Íslendingar muni sjá í gegnum það hvers konar ákvörðun þetta er og hvers konar framkoma þetta er af þeirra hálfu.“