Óvissa með flóttamenn í Ísrael

02.04.2018 - 22:48
Erlent · Asía · Ísrael
Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu gestures as he speaks during the Conference of Presidents of Major American Jewish Organizations in Jerusalem, Wednesday, Feb. 21, 2018. One of Benjamin Netanyahu's closest confidants Shlomo Filber has turned
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. Mynd: AP
Staða þúsunda afrískra flóttamanna í Ísrael er í mikilli óvissu eftir að Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hætti við áform um að koma þeim fyrir í vestrænum ríkjum.

Í fyrstu stóð til að flóttamönnunum yrði vísað úr landi. Eftir samningaviðræður við flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna samþykkti Netanyahu að fólkið fengi að fara til vestrænna landa. Hann hætti svo við þau áform í kvöld, og verða flóttamennirnir, sem koma flesti frá Súdan og Erítreu, áfram í Ísrael, í það minnsta fyrst um sinn.

Flóttamennirnir hafa orðið að pólitísku bitbeini í Ísrael. AFP fréttastofan segir trúaða og íhaldssama stjórnmálamenn óttast að kristnir og múslimskir Afríkubúar ógni menningu Ísraels. Á móti hafa íbúar í hverfinu í Tel Aviv sem flóttamennirnir hafa komið sér fyrir í gagnrýnt nýjustu ákvörðun forsætisráðherrans og segja hana skömm fyir Ísrael. Netanyahu ætlar að setjast niður með íbúum hverfisins á morgun. Þá eru nokkrir ráðherrar í ríkisstjórn Netanyahus ósáttir við samkomulagið sem hann gerði við flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, þar sem það hafði ekki verið gert í samráði við stjórnina.

Alls náði samkomulagið til rúmlega 16 þúsund flóttamanna. Sagði Netanyahu að þeir myndu fá hæli í ríkjum á borð við Kanada, Þýskaland og Ítalíu. Hann sagði að samkvæmt samkomulaginu yrði einum flóttamanni í Ísrael veitt tímabundið landvistarleyfi fyrir hvern flóttamann sem fluttur yrði til annars lands. Hann varð hins vegar að endurskoða ákvörðun sína eftir að yfirvöld í Þýskalandi og Ítalíu greindu opinberlega frá því að þau könnuðust ekki við neitt samkomulag við Ísrael.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi