Óvinnufær vegna kals á fótum eftir hrakningar á jökli

12.01.2020 - 18:45
Mynd: Landsbjörg / Landsbjörg
Par frá Bretlandi sem lenti í hrakningum við Langjökul í vélsleðaferð á vegum Mountaineers of Iceland ætlar að krefjast rúmlega tveggja milljóna í miskabætur. Lögmaður þeirra segir þau enn í uppnámi og konan er óvinnufær vegna dofa í fótum. Fjórir ferðamenn til viðbótar eru að leggja drög að málsókn.

Vilja milljón í miskabætur

Þrjátíu og níu ferðamenn óttuðust um líf sitt í vikunni er þau máttu hírast úti í hríðarbyl klukkutímum saman við Langjökul í skipulagðri vélsleðaferð á vegum Mountaineers of Iceland. Varað hafði verið við óveðri.  

Að minnsta kosti tvö ætla að krefja fyrirtækið miskabóta.  „Kröfubréf eru tilbúin og munu fara út eftir helgi þar sem við krefjum fyrirtækið um viðurkenningu á bótaskyldu og bótum sem eru yfir milljón á mann á þessu stigi,“ segir Helgi Þorsteinsson lögmaður.

Er það raunhæf krafa? „Ég myndi segja það, ég held að hún verði bara hærri eftir því sem tíminn líður. Þá bætist við lögmannskostnaður því lengur sem það tekur að sætta svona mál.“

Gæti leitt til áfallastreituröskunar eða líkamlegs tjóns

Skjólstæðingar hans eru á miðjum aldri, par frá Bretlandi. Þau eru í uppnámi eftir hrakningarnar. „Þau eru reyndar komin heim til sín, það er ekkert útséð með það hvort þetta leiðir til áfallastreituröskunar eða jafnvel líkamlegs tjóns,“ segir Helgi jafnframt. Einn ferðamaðurinn hefur tjáð mér að hann hefur þegar misst úr vinnu vegna þess að viðkomandi finnur ekki fyrir tánum. Það eru augljósar vísbendingar um að það er einhver skaði sem að er ekki endilega allur kominn fram.“

Fjórir ferðamenn til viðbótar, sem voru í ferðinni á Langjökli, settu sig í samband við Helga Þorsteinsson lögmann seinnipartinn í dag. Þau eru að leggja drög að málsókn með hans hjálp, leiða má líkur að því að þeir leggi fram sambærilegar kröfur.

Enginn þegar höfðað mál

Rekstrarstjóri Mountaineers of Iceland segir í samtali við fréttastofu að honum sé ekki kunnugt um að einhver hafi þegar höfðað mál gegn fyrirtækinu. Hann vill ekki tjá sig um hvort leitað verði sátta, ef kröfubréf berst. Lögreglan á Suðurlandi er með málið til rannsóknar, en rekstrarstjórinn segir að enn hafi ekki verið rætt við hann. 

Fyrirtækið lenti í svipuðu atviki fyrir þremur árum, þegar áströlsk hjón týndust í vélsleðaferð á svipuðum slóðum. Þeim voru dæmdar tæpar 700 þúsund krónur í skaðabætur.

Helgi segir málið fara fyrir dóm, náist ekki sættir. „Það dómsmál gætu auðvitað frestast vegna þessarar lögreglurannsóknar enda gæti niðurstaða úr henni haft áhrif á málið, ég held að niðurstaða úr dómsmáli gæti í fyrsta lagi legið fyrir fyrir áramót núna,“ segir Helgi jafnframt.

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jónsson - RÚV
Helgi Þorsteinsson, lögmaður.
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi