Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óviðunandi ástand og fátt um svör frá ríkinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bæjarstjóri Kópavogs segir algjörlega óviðunandi hve margir með heilabilun séu á biðlista eftir dagþjálfun í sveitarfélaginu. Biðlisti í Roðasali, þar sem veitt er slík þjónusta í Kópavogi, hefur lengst um þriðjung á undanförnum tíu árum.

34 Kópavogsbúar bíða nú eftir að komast að í dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun. Á höfuðborgarsvæðinu öllu er fjöldinn 179. „Þó að það séu 34 á biðlista í Roðasölum hjá okkur í þessari almennu dagþjónustu þá er fólk líka sem er með snert af heilabilun þannig að þetta er mjög slæmt ástand og í raun orðið algjörlega óviðunandi, algjörlega,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.

Fátt hefur verið um svör frá ríkinu, að sögn Ármanns. „Ég er búinn að fara og hitta ráðherra einu sinni og skrifa einhver bréf og það er satt best að segja fátt um svör. Við bara fáum ekki úthlutanir og þetta er sérstaklega slæmt líka vegna þess að það er búið að frestast sennilega í um tvö ár að hefja byggingu á hjúkrunarheimili hér í Kópavogi. Ég hef verið að benda á það að í slíku ástandi er enn þá ríkari þörf til þess að við fáum úthlutun til þess að veita dagþjónustu því að það er svo mikilvægt að geta létt á fjölskyldum með það að veita slíka þjónustu.“