Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óverulegt tjón af eldinum í Straumsvík

03.09.2019 - 12:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Eldurinn, sem kviknaði í álveri Rio Tinto í Straumsvík í gærkvöld, olli óverulegu tjóni og engan sakaði, segir Bjarni Már Gylfason upplýsingafulltrúi. Reykurinn var mestur milli kerskála eitt og tvö. Hann tengist ekki vandræðunum, sem álverið hefur glímt við undanfarið, eftir að ljósbogi myndaðist í kerskála þrjú í júlí.

Það sem olli eldinum var að heitt efni komst í plaströr, sem voru við útvegg í kerskála, og kveikti í rörunum og útveggnum. Eldurinn var að mestu utandyra. 

„Okkar starfsfólk brást hárrétt við og náði að slökka eldinn að mestu áður en viðbragðsaðilar komu. Og það er gert með léttvatni  þar sem að þetta er utandyra. Þannig að það gekk mjög vel að slökka eldinn og koma í veg fyrir tjón,“ segir Bjarni Már Gylfason.

Hvernig vinna var í gangi?

„Það er bara almenn vinna í kerskálum, verið að skipta um skaut og annað þvíumlíkt.“

Í hvaða kerskála?

„Þetta er í kerskála eitt og tvö, þarna þar á milli.“

Hvað var tjónið á stóru svæði?

„Það er á mjög afmörkuðu svæði. Þetta eru í raun og veru plaströr sem brenna sem að gerir það að verkum að reykurinn verður mjög svartur og mikill og áberandi. Svo er stafalogn sem er nú kannski frekar óvenjulegt hér í Straumsvík og ljósaskipti. Þannig að þetta er kannki meira áberandi en annars hefði verið.“

Hvert er tjónið?

„Tjónið er bara óverulegt.“

Ef að fólk var þarna við störf, var það í hættu?

„Það er auðvitað alltaf ákveðin hætta þegar að eldur kviknar en okkar fólk er þjálfað til að bregðast rétt við og við erum með okkar eigin slökkvilið sem að brást hárrétt við.“

Þetta var bara í rauninni ekkert mál?

„Ég segi það ekki, það er alltaf hætta þegar að eldur kviknar. Og við tökum svona atvik mjög alvarlega og rannsökum þau vel og vandlega. En það fór mjög vel þarna í gær og starfsfólk okkar brást hárrétt við í þessum aðstæðum.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV