Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óvenjustór hluti fylgdarlaus börn

28.08.2018 - 09:54
Erlent · Asía · Bangladess · Mjanmar · Morgunvaktin · Róhingjar · UNICEF
Mynd: EPA-EFE / EPA
Erna Kristín Blöndal, stjórnarformaður UNICEF á Íslandi segir meirihluta þeirra Róhinga sem hafa flúið ofsóknir í Mjanmar börn. Þá sé óvenjustór hluti þeirra fylgdarlaus börn. Sameinuðu þjóðirnar hafa kallað eftir því að að sex herforingjar í mjanmarska hernum verði sóttir til saka.

Um 900 þúsund Róhingjar búa við mjög erfiðar aðstæður í flóttamannbúðum í Bangladess eftir að hafa flúið ofsóknir í Mjanmar. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sendi út alþjóðlegt neyðarkall á dögunum vegna stöðu barna Róhingja. Erna Kristín var gestur á Morgunvaktinni á Rás 1.  „Á mjög skömmum tíma koma yfir landamærin mörg hundruð þúsund manns, meirihluti börn. Þá auðvitað þurfti að bregðast mjög hratt við, bara við að bjarga lífum. Hvað svo? Hver er framtíðin?“ Spyr Erna Kristín.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Erna Kristín Blöndal, stjórnarformaður UNICEF á Íslandi.

Sameinuðu þjóðirnar hafa kallað eftir því að að sex herforingjar í mjanmarska hernum verði sóttir til saka fyrir þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyninu. Hermennirnir hafa verið sakaðir um morð, nauðganir og aftökur án dóms og laga. Erna Kristín segir mörg barnanna hafa orðið vitni að hlutum sem ekkert barn ætti að þurfa að sjá.  „Þau hafa séð ættingja sína pyntaða, myrta, svívirta, kastað í eld.“

Viðtalið í heild má heyra í spilaranum hér að ofan.