Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Óvenjumörg mislingatilfelli í ár

31.12.2019 - 09:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Óvenjumörg mislingatilfelli hafa komið upp í ár. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir. Eins og sagt var frá í gær greindist átta mánaða gamalt barn með mislinga á Íslandi í vikunni. Barnið var að koma með flugi frá Asíu með millilendingu í Svíþjóð. Barnið er á batavegi.

„Þetta er búið að vera nokkuð annasamt ár hvað mislinga varðar. Við fengum þennan faraldur í febrúar þar sem fjórir einstaklingar greindust með alvöru mislinga og svo voru nokkrir fleiri með vægari mislinga. Svo var einn einstaklingur í sumar og svo núna þessi einstaklingur. Þannig að þetta er óvenju mikið miðað við síðustu ár,“ segir Þórólfur.

Þórólfur segir fyrstu einkenni mislinga byrja um viku eftir smit en það getur tekið allt upp í þrjár vikur fyrir fólk að veikjast. Fyrstu einkenni líkjast kvefeinkennum en á þriðja eða fjórða degi koma útbrot.

„Ég myndi halda að þeir sem voru í þessari sömu vél, að ef þeir fá kvefeinkenni þá eigi þeir að hafa samband við sinn lækni eða sína heilsugæslustöð. Þeir ættu helst ekki að mæta á staðinn og bíða þar innan um aðra heldur hringja og bíða þannig að það sé hægt að taka á móti fólki með góðum hætti og taka þannig sýni og sanna eða afsanna að það hafi þessa sýkingu,“ segir Þórólfur.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV