Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Óvenjulegur pólitískur þrýstingur“

09.09.2019 - 20:51
Mynd: Skjáskot / RÚV
Ólafur Ragnar Grímsson, stofnandi Hringborðs norðurslóðanna og fyrrverandi forseti Íslands, segir að áhugi bandarískra ráðamanna á norðurslóðum sé afgerandi stefnubreyting. Þá sé það athyglisvert að norðurslóðastefna Bandaríkjanna hafi ekki verið endurskoðuð í utanríkisráðuneytinu heldur í þjóðaröryggisráðinu af þjóðaröryggisráðgjafanum John Bolton og í Pentagon. „Mig grunaði ekki að þeir myndu koma svona fljótt inn á þennan vettvang með slíkum krafti.“

Ólafur Ragnar var gestur Kastljóss í kvöld þar sem hann ræddi málefni norðurslóða og heimsóknir bandarískra ráðamanna hingað til lands.

Ólafur var meðal annars spurður út í ummæli sem Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, lét falla fyrir utan Höfða um kínverska tæknirisann Huawei. Bandarískir ráðamenn hafa horn í síðu fyrirtækisins og telja að kínversk stjórnvöld geti notað búnað fyrirtækisins til eftirlits og njósna. Pence tók mál Huawei upp á fundi sínum með bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra og hvatti Íslendinga til að hafna viðskiptum við fyrirtækið. „Þetta er óvenjulegur pólitískur þrýstingur,“ sagði Ólafur um þessi ummæli Pence.

Það eru samt norðurslóðir sem eiga hug Ólafs Ragnars  um þessar mundir enda aðeins fjórar vikur þar til Hringborð norðurslóðanna hefst í Hörpu.  Ólafur segist hafa orðið var við það í heimsókn sinni til Washington fyrr á þessu ári að eitthvað ferli væri komið í gang í bandaríska stjórnkerfinu sem væri bæði nýtt og óvenjulegt.  

Mynd: RÚV / RÚV

Hann rifjaði upp að fyrst eftir að norðurskautsráðið var stofnað hafi Bandaríkjamenn ekki sýnt ráðinu mikinn áhuga og Obama forseti hafi verið hálf áhugalaus á sínu fyrsta kjörtímabili.  Nú sé annað upp á teningnum. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna og varaforseti landsins hafi komið hingað og von sé á orkumálaráðherra landsins auk þess sem fimm öldungadeildarþingmenn hafi heimsótt Ísland fyrir skömmu. 

Þá megi ekki gleyma og gera lítið úr útspili Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, um möguleg kaup Bandaríkjanna á Grænlandi. „Þetta er byrjun á nýrri stefnu gagnvart norðurslóðum þar sem þeir vilja gera Ísland og Grænland að helstu áherslusvæðum sínum í þessari nýju stefnumótun.“ Ólafur sagði mikilvægt að muna að norðurslóðir væru ekki Húnavatnssýsla eða Lappland heldur svæði sem væri álíka stórt og Afríka. Ísland ásamt Grænlandi og Færeyjum væru þar miðsvæðis og það væri orðið slíkur lykill að framtíðarþróun 21. aldarinnar að öll helstu áhrifaríki heims vildu eiga við þau samstarf.

 

Viðtalið í heild má sjá hér.