Ólafur Ragnar var gestur Kastljóss í kvöld þar sem hann ræddi málefni norðurslóða og heimsóknir bandarískra ráðamanna hingað til lands.
Ólafur var meðal annars spurður út í ummæli sem Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, lét falla fyrir utan Höfða um kínverska tæknirisann Huawei. Bandarískir ráðamenn hafa horn í síðu fyrirtækisins og telja að kínversk stjórnvöld geti notað búnað fyrirtækisins til eftirlits og njósna. Pence tók mál Huawei upp á fundi sínum með bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra og hvatti Íslendinga til að hafna viðskiptum við fyrirtækið. „Þetta er óvenjulegur pólitískur þrýstingur,“ sagði Ólafur um þessi ummæli Pence.
Það eru samt norðurslóðir sem eiga hug Ólafs Ragnars um þessar mundir enda aðeins fjórar vikur þar til Hringborð norðurslóðanna hefst í Hörpu. Ólafur segist hafa orðið var við það í heimsókn sinni til Washington fyrr á þessu ári að eitthvað ferli væri komið í gang í bandaríska stjórnkerfinu sem væri bæði nýtt og óvenjulegt.