Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Óvenju margir slasast á gangi og í umferðinni

01.03.2017 - 23:35
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Annan daginn í röð hafa sjúkraflutningamenn á höfuðborgarsvæðinu farið í yfir hundrað sjúkraflutninga á einum sólarhring. Mikið hefur verið um útköll vegna fólks sem hefur farið flatt á færðinni. Það á bæði við um gangandi vegfarendur sem missa fótanna í klaka og snjó á gangstéttum og ökumenn sem missa stjórn á bílum sínum í umferðinni.

Að sögn varðstjóra hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins er óvenju mikið um bæði fallslys og hálkuslys, það er að segja óhöpp og slys gangandi og akandi vegfarenda. 

Starfsmenn og verktakar á vegum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hafa unnið að því að ryðja götur, gangstéttir og göngustíga eftir metsnjókomuna sem féll aðfaranótt sunnudags. Það gengur þó hægt vegna þess mikla snjós sem er út um allt. 

Slökkviliðið hefur líka varað fólk við að hættan er ekki aðeins undir fótum þess heldur líka fyrir ofan höfuð þess. Það eru snjóhengjur á þökum og grýlukerti sem gætu fallið hvenær sem er.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV