Óvænt tíðindi úr mygluskálanum en enginn næturgestur

17.11.2019 - 19:19
Mynd: RÚV / RÚV
Síðustu mánuði hafa áhrif myglu á byggingarefni verið rannsökuð í mygluskála Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins við Keldnaholt í Reykjavík. Vonir standa til að niðurstöður skili sér í vali á efni sem myglar minna. Enn hefur enginn viljað gista í skálanum.

„Við höfum tekið sýni frá helstu innflytjendum á krossviði, spónarplötum, gipsplötum og öðru. Síðan er það sett í mismunandi rakastig og geymt þar í nokkra mánuði,“ segir Ólafur H. Wallevik, prófessor við HR og forstöðumaður Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins.

Flest sýnin mygla fyrr eða síðar, en mikill munur er eftir því við hvaða rakastig þau eru geymd. Þá geta verið allt upp í sjö ólíkar tegundir myglu í hverju sýni. Til að fá nákvæmar niðurstöður þarf að taka fleiri sýni seinna. Það er þó strax margt sem kemur á óvart.

„Það var gipsplatan sem var með rakavarnarlagi, að það myglaði fyrst á rakavarnarlaginu,“ segir Ólafur. Þá er líka mikill munur á milli sýna af sömu gerð. Þetta er einungis fyrsti áfanginn og því gætu síðari niðurstöður orðið forvitnilegar.

„Við munum reyna að fá iðnaðinn til að velja efni sem myglar minna, eða hægar. Þannig að það verði minna af þessu í samfélaginu.“

Hér inni er rúm, en þið eruð ennþá að bíða eftir fyrsta næturgestinum.

„Já, við buðum upp á ókeypis gistingu í viku, en enginn hefur þegið það. En það hefur verið brotist inn. En engu var stolið, sem er furðulegt.“

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi