Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Óvænt káluppskera á Djúpavogi

10.08.2010 - 21:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Tilraun til að græða upp land á Djúpavogi með grasfræi misheppnaðist hrapalega. Upp úr jörðinni spratt eitthvað allt annað en gras.

Íbúar á Djúpavogi hafa nóg að maula þessa dagana. Meðan þokan laumar sér inn má sjá bæjarbúa skjótast um með eitthvað grænt og safaríkt í poka. Þetta hófst allt þegar hreppurinn pantaði grasfræ og ætlaði að græða upp moldargarða við geymslusvæðið í Gleðivík.

Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri á Djúpavogi, segir að tveir pokar hafi borist að sunnan. Annar hafi verið með grasfræjum en hinn með fóðurkáli. Hvorugur pokinn hafi verið merktur. Hringt hafi verið suður til að afla upplýsinga um hvor væri hvað og síðan hafi verið sáð í garðana í góðri trú. Einkennilegt gras hafi farið að vaxa en vanir menn hafi strax séð að þarna væri að spretta fóðurkál.

Kálgarðurinn er mörghundruð metra langur og sækja ferðmenn í kálið. Sigurður Guðmundsson listamaður býr á Djúpavogi á sumrin og fagnar óvæntri uppskeru við listaverk sitt í fjörunni. Hann segir að hótelið á staðnum noti kálið í rétti.  Það minni á grænkál og blöðin umhverfis blómkálshausa.

Gerð verður önnur tilraun til að sá grasi í skjólgarðana næsta sumar og verður spennandi að sjá hvað kemur upp.

Horfa á frétt.