Óvægin gagnrýni á hvíta kynþáttahyggju

Mynd: Blackkklansmen / Blackkklansmen

Óvægin gagnrýni á hvíta kynþáttahyggju

09.06.2019 - 10:16

Höfundar

Blackkklansman er spennutryllir, paródía og óvægin gagnrýni á hvíta kynþáttahyggju og rasisma í Bandaríkjunum. Hún er að mati kvikmyndarýnis Lestarinnar ein besta mynd Spike Lee og á erindi við breiðan hóp áhorfenda.

Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Það er starfsfólki Bíó Paradísar að þakka að nýjasta kvikmynd bandaríska leikstjórans Spike Lee, Blackkklansman fór í sýningar hér á landi, en dreifingaraðilum myndarinnar fannst víst líklegt að myndin ætti ekki eftir að höfða til fjöldans en hún hefur nú verið í sýningu í Bíó Paradís og hefur að sögn starfsfólks þar fengið mjög góða aðsókn. Þetta þykir mér nokkuð skrýtið viðhorf hjá dreifingaraðilum, enda er Spike Lee Hollywood-leikstjóri sem gerir kvikmyndir fyrir meginstrauminn. Á heimasíðu Bíó Paradísar stendur „Ekki missa af myndinni sem var sögð of svört fyrir Íslendinga,“ sem er í raun einstaklega furðulegt vegna þess að þetta er mynd sem fjallar alveg jafn mikið um hvíta og hvíta kynþáttahyggju og setur sögulega atburði í samhengi við nútímann og uppgang rasista í Bandaríkjunum og þá sérstaklega atburðina óhugnanlegu í Charlottesville árið 2017.

Hópur hvítra kynþáttahatara, ný-nasistar, öfgahægrimenn hins hægrisins og Ku Klux Klan menn, meðal annarra, gengu um Charlottesville með logandi kyndla undir formerkjunum „Unite the right“, eða „sameinum hægrið“, undir verndarvæng orðræðu Donalds Trump. Ég fjallaði fyrr í vetur um Green Book sem sópaði að sér Óskarsverðlaunum, mynd sem einnig fjallar um hvíta kynþáttahyggju og samskipti svartra og hvítra í Bandaríkjunum en var einmitt mikið gagnrýnd fyrir að gera hvítan mann enn eina ferðina að aðalpersónu í sögu um samskipti svartra og hvítra og endurskapa enn eina ferðina hina þvældu tuggu um hvíta bjargvættinn.

Spike Lee reyndi að yfirgefa salinn þegar Green Book var valin besta myndin á Óskarnum en Blackkklansman hlaut sex tilnefningar á sömu hátíð og Lee fékk Óskarinn í fyrsta skipti á ferlinum fyrir besta handrit byggt á áður útgefnu efni. Það verður því að teljast furðulegt að myndin hafi ekki talist nægilega söluvænleg hér á landi og vekur hjá mér ýmsar spurningar vegna þess að þetta er mynd sem á svo sannarlega erindi við fjöldann.

epa07396845 Spike Lee poses at the 2019 Vanity Fair Oscar Party following the 91st annual Academy Awards ceremony, in Beverly Hills, California, USA, 24 February 2019. Purple suit by Ozwald Boateng, Prince's symbol by Amedeo Scognamiglio and Love and Hate knuckle rings from Do the Right Thing film. The Oscars are presented for outstanding individual or collective efforts in 24 categories in filmmaking.  EPA-EFE/NINA PROMMER
 Mynd: EPA
Spike Lee með fyrsta Óskarinn sinn.

Blackkklansman byggist á sönnum atburðum og endurminningum lögreglumannsins Ron Stallworth sem var fyrsti svarti lögreglumaðurinn í Colorado sem tókst að komast inn í innsta kjarna Ku Klux Klan samtakanna, með því að vinna sér traust og vináttu meðlima samtakanna með því að þykjast vera hvítur. Sögusviðið er Colorado árið 1972 en hinir sönnu atburðir áttu sér þó stað nokkru síðar eða 1979. Ron tókst meðal annars að vinna sér inn traust og vináttu sjálfs æðstaprests eða „grand wizard“ samtakanna, Davids Duke, en í lok myndarinnar bregður Duke einmitt fyrir í vídjóupptöku frá Charlottesville árið 2017. Topher Grace sem flestir áhorfendur þekkja úr That 70s show fer með hlutverk Duke og er eiginlega óhugnanlega líkur honum.

Skýr skilaboð

Blackkklansman segir eina af þessum sönnu sögum sem eru lygilegri en nokkur skáldskapur. Spike Lee segir söguna af öryggi og krafti og tekst að feta fimlega á milli húmors og svo hryllingsins sem umkringir Ku Klux Klan og ofbeldisins sem hvítir hafa beitt svarta í Bandaríkjunum. Ron Stallworth er leikinn af John David Washington sem fer einstaklega vel með hlutverk hins réttsýna Ron sem er fastur á milli hollustu við starf sitt sem lögregluþjóns og hollustu við samfélag og réttindabaráttu svartra en hann verður fyrir aðkasti og fordómum frá hvítum samstarfsmönnum sínum og mætir andúð síns fólks fyrir starf sitt. Adam Driver leikur helsta samstarfsmann Stallworths en í kvikmyndinni er persóna hans gyðingur sem þarf að leika Ron þegar hann þarf að hitta Ku Klux Klan meðlimina í eigin persónu. Fyrsta verkefni Rons er hins vegar að njósna um samtök svartra stúdenta, en eins og baráttukonan Patrice sem hann kynnist þar og verður ástfangin af, bendir honum á, getur enginn sem starfar fyrir lögregluna í Bandaríkjunum verið annað en óvinur svartra.

Mynd með færslu
 Mynd: Blackkklansmen

Spike Lee tekst að vefa saman hárbeittri gagnrýni á bandarískt samfélag og ríkjandi hvítri kynþáttahyggju þá og nú við áhugaverða sögu Rons Stallworths í Blackkklansman og öll hans helstu stíleinkenni eru til staðar en hann nýtir sér einnig frásagnartækni heimildarmynda og leyfir sér að vera bókstaflegur og skýr í framsetningu á efninu, til þess að tryggja að skilaboðin komist skýrt og örugglega til áhorfenda.

Lee í toppformi

Leikstjórinn Boots Riley sem gerði Sorry to bother you gagnrýndi Lee og Blackkklansman fyrir að gera of hátt undir höfði vináttu og sambandi Rons við hvíta samstarfsmenn sína í lögreglunni í baráttunni gegn kynþáttahatri sem og þeirri staðreynd að Stallworth tekur þátt í að grafa undan róttækum réttindabaráttusamtökum svartra í starfi sínu fyrir lögregluna.

Blackkklansman er eftir sem áður þrusu spennutryllir, paródía og óvægin gagnrýni á hvíta kynþáttahyggju og rasisma í Bandaríkjunum sem gegnumsýrir alla valdastrúktúra þar í landi og er ein besta mynd Spike Lee sem er í toppformi bæði í Blackkklansman og She’s Gotta Have it þáttunum sem eru sýndir á Netflix um þessar mundir. Blackkklansman á svo sannarlega erindi við breiðan hóp áhorfenda og það væri óskandi að sami fjöldi og sá Green Book hér á landi sem og annars staðar sæi líka Blackkklansman. Ég vona að dreifingaraðilarnir hugsi sig betur um næst og ég þakka Bíó Paradís fyrir að berjast fyrir því að fá að sýna myndina hér á landi.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Reitti Trump til reiði og gagnrýndi sigurmynd

Menningarefni

Tár, bros og Óskarsstyttur

Kvikmyndir

Barbarar, Ku Klux Klan og kynlíf trölla

Sjónvarp

Spike Lee bætir fyrir 30 ára gömul mistök