Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:
Það er starfsfólki Bíó Paradísar að þakka að nýjasta kvikmynd bandaríska leikstjórans Spike Lee, Blackkklansman fór í sýningar hér á landi, en dreifingaraðilum myndarinnar fannst víst líklegt að myndin ætti ekki eftir að höfða til fjöldans en hún hefur nú verið í sýningu í Bíó Paradís og hefur að sögn starfsfólks þar fengið mjög góða aðsókn. Þetta þykir mér nokkuð skrýtið viðhorf hjá dreifingaraðilum, enda er Spike Lee Hollywood-leikstjóri sem gerir kvikmyndir fyrir meginstrauminn. Á heimasíðu Bíó Paradísar stendur „Ekki missa af myndinni sem var sögð of svört fyrir Íslendinga,“ sem er í raun einstaklega furðulegt vegna þess að þetta er mynd sem fjallar alveg jafn mikið um hvíta og hvíta kynþáttahyggju og setur sögulega atburði í samhengi við nútímann og uppgang rasista í Bandaríkjunum og þá sérstaklega atburðina óhugnanlegu í Charlottesville árið 2017.