Óumflýjanlegt að líta til einkaframkvæmda

10.08.2016 - 20:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Innanríkisráðherra segir að meira fé þurfi að veita til vegaframkvæmda á komandi árum, og leita þurfi allra leiða til að mæta fjölgun ferðamanna, meðal annars að horfa til einkaframkvæmda. Fréttastofan sýndi í síðustu viku nokkur dæmi um illa farna og jafnvel illfæra malarvegi að fjölsóttum ferðamannastöðum. Engar verulegar úrbætur eru áformaðar á sumum veganna í fjögurra ára samgönguáætlun sem liggur fyrir Alþingi.

Malarvegir eru langt frá því að vera einu vegirnir sem þarfnast meira viðhalds, því vegamálastjóri segir að ástandið, jafnvel á helstu þjóðbrautum, norður á Akureyri og austur að Kirkjubæjarklaustri, sé á köflum ekki fullnægjandi. Fjölgun ferðamanna hefur aldrei verið jafn hröð og nú, síðan ferðamannabylgjan hófst eftir hrun, með tilheyrandi álagi á innviði.

Ólöf segir að í þessu tilliti sé sú spurning aðkallandi hversu mörgum ferðamönnum við getum tekið á móti. „Og við þurfum að gæta að því að við sem lifum núna, við berum ábyrgð á þessu landi, við þurfum að skila því aftur til komandi kynslóða,“ segir Ólöf. 

„Það er alveg augljóst að við þurfum að veita meira fé til vegamála á komandi árum. Það þarf að tvöfalda miklu víðar en við höfum gert, og að umferðin þoli bara ekki það vegakerfi sem við höfum lagt upp með. Og ég held að það styttist mjög í að við þurfum að svara slíkum spurningum,“ segir innanríkisráðherra.

Ólöf telur að til að mæta fjölgun ferðamanna og gera Ísland áfram að ákjósanlegum kosti þurfi að leita allra leiða. Bæði þegar litið er til opinberra framkvæmda og hvort ástæða sé til að leita til einkaframkvæmda í samgöngumálum.

 

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi