Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Óttast um íslenska nafnahefð

Formaður Íslenskrar málnefndar.
 Mynd: Orðbragð - RÚV

Óttast um íslenska nafnahefð

16.06.2016 - 09:05

Höfundar

Guðrún Kvaran, prófessor og formaður íslenskrar málnefndar segir að íslensk nafnahefð gæti horfið á einni til tveimur kynslóðum nái breytingar á mannanafnalögum fram að ganga. Það sýni sagan annar staðar.

„Ég held að það sé alltaf mikið tap þegar við missum einhvern ákveðinn þátt úr tungumálinu því ég lít á bæði eiginnöfn og nafnakerfi sem hluta tungumálsins. Ef að þessi venja, að kenna sig til föður eða móður leggst af, eða verður mjög lítil, þá tel ég þetta mikinn skaða fyrir þjóðfélagið,“ sagði Guðrún í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. 

Engar takmarkanir verða á notkun ættarnafna, hvorki til verndar gömlum né bann við nýjum og ákvæði um að stúlkum skuli gefin kvenmannsnöfn og drengjum karlmannsnöfn verða felld brott ef drög að breyttum mannanafnalögum verða samþykkt.  „Í þessum nýjum drögum á vissulega að beygja íslensk nöfn en ekki erlend nöfn.“ Guðrún segir mörg dæmi um að fólk af erlendum uppruna sem flytur hingað til lands vilji gjarnan laga nöfn sín að íslenskum nafnasið, til að verða meiri hluti af samfélaginu. Þess séu dæmi hjá mannanafnanefnd. Meira áhyggjuefni séu íslenskir foreldrar sem gefi börnum sínum erlend nöfn. „Ef það þarf ekkert að beygja þau, og tíminn líður og þessum nöfnum fjölgar, að þá hef ég áhyggjur af því að það hafi áhrif á íslensku nöfnin. Ef að þarna fellur úr eitt svið, þar sem fólk er algjörlega ruglað í beygingunni, þá spyr ég bara hvernig verður það eftir tvær, þrjár eða fjórar kynslóðir: Færist það þá ekki yfir á önnur svið?“

Á vef innanríkisráðuneytisins kemur fram að með því að birta drögin og óska rökstuddra athugasemda fyrir 1. ágúst sé hvatt til umræðu um hvert skuli stefnt.