Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óttast slæm áhrif á lýðheilsu

19.09.2019 - 17:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir formaður þingflokks Vinstri grænna segir varhugavert að opna fyrir netverslun með áfengi hér á landi og óttast að það hafi slæm áhrif á lýðheilsu.

Heimilt verður að kaupa áfengi í íslenskum netverslunum samkvæmt frumvarpi sem dómsmálaráðherra hyggst leggja fram á næsta ári. Erlendar netverslanir hafa hingað til haft leyfi til að selja áfengi hér á landi. Verði frumvarp dómsmálaráðherra að lögum geta íslenskar netverslanir boðið sömu þjónustu án aðkomu ÁTVR. Áfengið er þá sent heim að dyrum en kaupandi greiðir virðisaukaskatt og áfengisgjald af sendingunni.

Þá er enn fremur lagt til að fyrirtækjum verði heimilt að selja eigin framleiðslu í brugghúsi eða á framleiðslustað.

Bjarkey segir að það hafi komið á óvart að þetta mál sé á þingmálalista dómsmálaráðherra.

„Auðvitað á þetta eftir að fara í gegnum ríkisstjórnina áður en það kemur til þingflokka til afgreiðslu. En Vinstri græn hafa haft efasemdir um útvíkkanir er varða áfengi og sölu á því eins og þekkt er og hefur margoft komið fram í þingsal,“ segir Bjarkey. 

Hún á von á því að málið verði ítarlega rætt innan þingflokksins. Sjálf sé hún ekki spennt fyrir því að opna frekar fyrir sölu á áfengi á netinu. Sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið í gangi um aðgengi ungs fólks að fíkniefnum á netinu. 

„Við höfum verið opin fyrir tækifærum litlu brugghúsanna sem hafa vilja fá að selja á sínu svæði og hjá sér en þetta er allt annað heldur en það. Ég get sagt að miðað við afstöðu Vinstri grænna fram til þessa þá verðum við með okkar efasemdir,“ segir Bjarkey.

Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar segir að málið geti haft mikla þýðingu fyrir rekstur ÁTVR. 

"Þetta er auðvitað grundvallarbreyting en með því er verið að afnema einokun ÁTVR og það er auðvitað stórt skref í átt að auknu frelsi,“ segir Þorsteinn.