Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óttast ekki að verða undir í samkeppninni

05.11.2019 - 19:58
Innlent · flug · Flugfélög · Icelandair · play · wab · Wow air · Viðskipti · Samgöngumál
Mynd: RÚV / RÚV
Forstjóri hins nýja flugfélags Play telur að það geti vel þrifist í samkeppni við Icelandair. Markaðssérfræðingur segir margar gildrur í flugrekstri og mikilvægt sé að læra af mistökum WOW air.

Hulunni var svipt af hinu nýja flugfélagi, sem áður gekk undir vinnuheitinu WAB, í Perlunni í dag. Að sögn Arnars Más Magnússonar, forstjóra Play, er stofnun flugfélagsins komin langt á veg. Flugrekstrarleyfi sé handan við hornið, búið að ganga frá samningum um leigu hluta flugvélaflotans sem og við þjónustuaðila á flugvöllum og bókunarvélin tilbúin. Búið sé að auglýsa eftir starfsfólki og sjálf bókunarsíðan fari í loftið í nóvember og þá hefjist miðasala.

Enn er óvíst hvert verður flogið. Aðeins er gefið upp að í fyrstu verði tvær flugvélar sem fljúgi til Evrópu. Í vor verði flugvélarnar orðnar sex talsins og þá er stefnt á að áfangastaðirnir verði orðnir sex í Evrópu, fjórar borgir og tveir þekktir sólarlandastaðir. Þá hefst líka Ameríkuflugið og eiga áfangastaðirnir þar að vera fjórir talsins. Að endingu er stefnt á að flugvélar félagsins verði tíu eftir þrjú ár.

Ekkert flugfélag lifað af samkeppnina

Fjármögnun er tryggð til lengri tíma, segir forstjórinn. Áttatíu prósent komi frá breskum fagfjárfestasjóði og tuttugu prósent frá Íslenskum verðbréfum. Hingað til hefur ekkert íslenskt flugfélag lifað af samkeppni við Icelandair. Bara undanfarinn áratug hafa tvö flugfélög, Iceland Express og WOW air, lagt upp laupana og því hlýtur sú spurning að vakna hvort yfir höfuð sé grundvöllur fyrir annað flugfélag, flugfélag sem byggir á sömu hugmyndafræði og þau tvö sem ekki lifðu samkeppnina af.  „Já, hundrað prósent. Við teljum að eins og tíðkast í löndum í kringum okkur, við erum með bæði þessi legacy-félög og annað lággjaldafélag. Við teljum að það geti vel gengið upp á Íslandi,“ segir Arnar Már. Hjá Play verði einfaldleikinn í fyrirrúmi. „Það skiptir máli í lággjaldaheiminum, að vera einföld með einfalda flotastefnu.“

Afrek að tryggja þotur

Snorri Jakobsson hjá greiningardeild Capacent segir að það eitt að fjármögnun sé tryggð og að félagið hafi þegar tryggt sér Airbus-þotur á leigu sé afrek út af fyrir sig. Hins vegar séu margar gildrur í rekstri flugfélaga - hörð samkeppni, hagsveiflur, olíuverð, gengissveiflur og jafnvel heimspólitíkin. „Við höfum séð það hjá WOW að þá fóru breiðþoturnar mjög illa með WOW og þar voru það fjárfestingaákvarðanir og áætlanir sem gengu ekki upp og í flugrekstri er oft þannig að það eru sjö góð ár og sjö mögur ár.“

Mikilvægt sé að læra af mistökum sem gerð voru hjá WOW air. „Aldrei að segja aldrei. Þeir virðast allavega byrja smátt og byrja skynsamlega og svo verður tíminn að leiða í ljós hvernig sá rekstur gengur.“