Óttast áhrif hráakjötsdóms og tollasamnings

27.02.2018 - 13:28
Mynd með færslu
 Mynd: Drífa Friðgeirsdóttir - Budardalur.is
Bændasamtök Íslands segja að grípa þurfi tafarlaust til aðgerða til að mæta áhrifum nýlegs dóms EFTA-dómstólsins sem kveður á um skyldur Íslands til að leyfa innflutning á hráu kjöti, ferskum eggjum og ógerilsneyddri mjólk. Enn fremur vilja samtökin ræða tollavernd heildstætt vegna samnings ESB og Íslands um aukna tollfrjálsa kvóta á búvörum frá ESB-löndunum.

Bændurnir telja að áhrif tollasamningsins og dómsins verði mikil og alvarleg fyrir íslenskan landbúnað. Þá geti það einnig haft neikvæð áhrif á viðkvæmar byggðir á Íslandi.

Hráakjötsdómurinn

Þann 14. nóvember komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að íslenska leyfisveitingakerfið fyrir innflutning á hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólk samrýmist ekki ákvæðum EES-samningsins. Samtök verslunar og þjónustu, SVÞ, höfðu kvartað vegna innflutningstakmarkana á fersku kjöti, unnu sem óunnu, kældu sem frosnu og tölu það brjóta gegn ákvæðum EES-samningsins að skylda innflytjendur til að sækja um leyfi vegna innflutnings á slíkum vörum. EFTA-dómstóllinn tók undir kröfu þeirra. Það stendur því upp á Alþingi að bregðast við dómnum með því að breyta íslenskum lögum og liðka um innflutningstakmarkanir á vörunum. Núverandi ríkisstjórn hefur boðað frumvarp á vorþingi til þess.

Bændasamtökin vilja ekki breyta núgildandi lögum og vilja láta reyna á hvort hægt sé að halda innflutningstakmörkunum óbreyttum.

Ótti við sýkingar

Samtökin segja í bréfi til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að EFTA-dómstóllinn hafi ef til vill ekki tekið tillit til stöðu Íslands og íslensks landbúnaðar þegar dómurinn var kveðinn upp. Þeir segja að matarsýkingum kunni að fjölga með auknum innflutningi á hráu kjöti og sýklalyfjaónæmar bakteríur kunni að berast til landsins. Tekið er fram að eftirlit hérlendis með kampýlóbakter og salmonellu sé umfangsmeira en annars staðar á EES-svæðinu og árangur Íslands í baráttu við sýkingarnar sé talinn öfundsverður. Þá geti það valdið miklu tjóni með ófyrirséðum afleiðingum ef erlendir smitsjúkdómar berist til landsins og í innlenda búfjárstofna.

Bændasamtökin óska eftir því að íslensk stjórnvöld leggi leið sína til Brussel til viðræðna við Evrópusambandið um stöðuna sem upp er komin vegna dómsins.

Tollasamningur Íslands og ESB

Ísland og ESB gerðu með sér samning árið 2015 um afnám tolla á landbúnaðarvörur, en samningurinn tekur gildi 1. maí. Samkvæmt honum verða tollar felldir niður af meira en 340 tollskrárnúmerum og lækkaðir á meira en 20 til viðbótar. Þetta þýðir meðal annars að flytja má inn nærri 3000 tonn af nauta-, svína-, og alifuglakjöti í stað 600 tonna eins og nú er. Þá verður íslenskum framleiðendum heimilt að flytja yfir 3000 tonn af lambakjöti tollfrjálst til landa Evrópusambandsins og 4000 tonn af skyri svo eitthvað sé nefnt.

Bændasamtökin segja að álit hagfræðings bendi til þess að tollasamningurinn geti valdið allt að 16% tekjusamdrætti í einstökum greinum. Samtökin vilja láta fara yfir tollvernd í landbúnaði í heild. Þeir taka fram að tollvernd hafi rýrnað með hækkandi gengi krónu.

Bændasamtökin sendu bréf á sjávar- og landbúnaðarráðherra þar sem tíundaðar eru aðgerðir sem bændur telja brýnt að gripið verði til til verndar íslensku landbúnaðarkerfi. Bréfið fylgir fréttinni.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi