Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óttast að trúverðugleiki nefndarinnar hafi beðið hnekki

Mynd með færslu
 Mynd:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis óttast að trúverðugleiki nefndarinnar hafi beðið hnekki eftir að þrír þingmenn hennar samþykktu að hefja frumkvæðisathugun á því hvernig sjávarútvegsráðherra metur hæfi sitt gagnvart Samherja. Miklar deilur spruttu upp á fundi nefndarinnar þegar þetta var samþykkt.

Þrír þingmenn samþykktu á fundi stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar á föstudaginn að hefja frumkvæðisathugun á því hvernig Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, myndi láta meta hæfi sitt vegna tengsla sinna við útgerðarfyrirtækið Samherja og hvort tilefni hefði verið fyrir slíkri athugun í ráðherratíð hans. Þetta voru formaður nefndarinnar, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson sem nú er óháður eftir að hafa sagt sig úr þingflokki VG og Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Aldrei reynt á vanhæfi

Þórhildur Sunna rifjar upp að þegar Kristján Þór tók við embætti hafi hann sagt að hann myndi láta meta hæfi sitt sérstaklega ef vafamál tengd Samherja kæmu upp. Hins vegar hafi hann einnig upplýst í óundirbúnum fyrirspurnartíma á dögunum að aldrei hafi komið til þess.

„Þá liggur spurningin fyrir okkur, hvernig er þetta metið, hvaða verklag er innan sjávarútvegsráðuneytisins til þess að meta hæfi ráðherra fyrir einstakar ákvarðanir og hvernig hefur verklagið hingað til og hvað mun ráðherra gera til þess að það verði ekki hagsmunaárekstrar í framtíðinni.“

Fulltrúi Miðflokks gekk á dyr

Fundurinn var mikill hitafundur, samkvæmt frásögn Guðmundar Andra á Facebook. Sagði hann að fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafi lagst gegn tillögunni, misjafnlega þunglega þó. Sjálfstæðismenn hafi talið að með þessu væri grafið undan trausti og trúverðugleika nefndarinnar en fulltrúar VG og Framsóknar hafi viljað að ráðherrann fengi að skýra sín sjónarmið fyrir nefndinni áður en ákvörðun var tekin. Lengst hafi þó fulltrúi Miðflokksins, Þorsteinn Sæmundsson, gengið í andstöðu sinni. Mun Þorsteinn hafa gengið út af fundi með þeim orðum að formaður nefndarinnar nyti ekki hans trausts.

Önnur sjónarmið ráða för

Óli Björn Kárason, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, segist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með að frekari gagnaöflun hafi ekki farið fram áður en ákveðið var að hefja frumvkæðisathugun. 

„Það eru ekki merki um vönduð vinnubrögð. Það eru merki um það að það eru önnur sjónarmið sem ráða för hjá þessum þremur þingmönnum sem ákváðu þessa frumkvæðisrannsókn. Og ég óttast, að trúðverðugleiki stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi beðið hnekki.“