Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óttast að þykja ekki fyndnir utan Reykjavíkur

Mynd: RÚV / RÚV

Óttast að þykja ekki fyndnir utan Reykjavíkur

20.11.2019 - 16:52

Höfundar

Spéfuglarnir og uppistandararnir Villi Neto og Stefán Ingvar Vigfússon gera upp æsku sína, menntun og uppeldi í nýrri einlægri uppistandssýningu sem þeir ferðast með um landið næstu daga.

Í lýsingu viðburðarins, sem þeir félagar kalla Endurmenntun, kemur fram að Villi Neto muni segja frá menningarsjokkinu sem fylgdi því að flytja til Íslands frá Portúgal fjórtán ára gamall en Stefán Ingvar deili reynslu sinni af því að vera skakkur frá sextán ára aldri þar til að dreif sig í meðferð tuttugu og tveggja ára. Drengirnir eru lagðir af stað í ferðalagið með persónulegar sögur og brandara í farteskinu en þeir segjast aldrei áður hafa skemmt utan miðbæjar Reykjavíkur. „Við fundum fyrir svo miklum þrýstingi frá landsbyggðinni um að við troða upp þar að við þorðum ekki annað en að hlýða,“ segir Stefán brattur. „Ég hef aldrei komið fram úti á landi en mér finnst mjög gaman að vera á Akureyri og hlakka til,“ segir Villi. 

Þeir eru því nokkuð spenntir fyrir ferðinni en þó örlar á kvíða yfir einhverjum atriðum. „Ég óttast mest að það verði leiðinleg færð á heiðinni, að það komi enginn og ég þyki ekki fyndinn utan Reykjavíkur. Ég óttast líka líkamleg meiðsli og höfnun,“ segir Stefán sposkur. 

Yfirskrift ferðalagsins og sýningarinnar er sem fyrr segir Endurmenntun en titillinn var valinn vandlega. „Við erum að reyna að endurmennta okkur í gríni og gera fyndið grín án þess að ráðast gegn jaðarhópum. Þetta er grín sem er skemmtilegt fyrir alla,“ segir Villi.  „Við erum að sjá hvort við séum búnir að endurmennta okkur nógu vel til að þetta sé fyndið fyrir alla Íslendinga.“

Með í för verður grínistinn Hákon Örn Helgason og eiga þeir von á, þó að prógrammið sé orðið þétt, að komi þeir til með að lauma inn gríni sem óhjákvæmilega muni fæðast í bíl á leiðinni þegar þrír grínarar ferðist saman. „Ég tek líka með mér tónlist til að hlusta á í bílnum en ég held við verðum svo uppteknir að tala saman að ég hafi ekki einu sinni tíma til að spila hana,“ segir Villi.

Ferðalagið byrjar á Akureyri þaðan sem þeir munu halda á Snæfellsnes en enda í Reykjavík. „Svo byrjum við að skrifa nýtt efni um leið og ferðalagið er búið,“ segir Stefán.

Andri Freyr Viðarsson ræddi við Stefán Ingvar og Villa Neto í Síðdegisútvarpinu og má hlýða á innslagið í spilaranum efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

„Kannski fá þau sektarkennd þegar ég drep mig“

Tónlist

Villi Netó heldur uppi stuðinu á Snæfellsnesi