Óttast að of mikillar bjartsýni gæti í hagspám

19.09.2019 - 09:52
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - Alþingi
Íslenskt efnahagslíf virðist vera að sleppa mjög auðveldlega frá miklum hagvexti síðustu ára segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Hann óttast þó að framtíðin í efnahagslífinu geti verið verri en gert er ráð fyrir í hagvaxtarspám, ekki síst vegna erlendra áhrifa.

Ásgeir og Gylfi Zoega, nefndarmaður í peningastefnunefnd, mættu á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, í morgun. Þar ræddu þeir skýrslu peningastefnunefndar og horfur í efnahagsmálum.

„Við erum að sleppa mjög auðveldlega frá mjög miklum hagvexti,“ sagði Ásgeir um 0,2 prósenta samdrátt. Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, spurði Ásgeir og Gylfa hvaða mat þeir legðu á hagvaxtarspár, hversu raunsæjar þær væru.  

 „Ég sjálfur óttast að óvissan sé niður á við, að þetta sé of gott til að vera satt,“ sagði Ásgeir. Hann vísaði til þess að horfur í alþjóða efnahagskerfinu sé tvísýnar, að auki séu blikur á lofti í ferðaþjónustunni og gengi krónunnar sterkt. Ásgeir sagði að sögulega hefði erfiðleikum útflutningsatvinnugreina alltaf verið mætt með því að fella gengið til að koma útflutningnum aftur af stað.

Ásgeir benti á að einkaneysla hefði minnkað úr 60 prósentum í 50 prósent á síðustu árum og að sparnaður hefði aukist. Áður hefði einkaneyslan verið skuldsett að miklu leyti. Þar sem skuldsetning einkaneyslu er minni en áður og kaupmáttur dregst ekki saman „erum við ekki að sjá innlenda eftirspurn hrynja eins og áður, það heldur uppi hagvexti á næsta ári“.

„Ég óttast það að mögulega sé þetta of mikil bjartsýni í ljósi þess sem eru að gerast úti,“ sagði hann þó um efnahagshorfur hérlendis. Hann sagði jafnframt að hægt væri að lækka vexti meira ef verðbólga heldur áfram að lækka og ef hagvaxtarhorfur versna.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi