Óttast að Ísland sé álitið spillingarbæli

14.11.2019 - 10:56
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segist óttast að Ísland sé að verða að spillingabæli í augum alheimsins. Þetta sagði hann í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi. Logi nefndi sem dæmi Panamaskjölin, Vafningsmálið, Lekamálið, Landsréttarmálið, tíu ára afmæli hrunsins, að Ísland væri á svokölluðum gráum lista vegna skorts á aðgerðum í peningaþvættismálum og svo núna Samherjamálið. 

Logi spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hvort hann hefði ekki áhyggjur af því að fyrirtæki sem hafi verið treyst fyrir því að nýta auðlindir Íslands gæti lengt veru Íslands á gráa listanum. Logi spurði einnig hvort ráðherrann gæti treyst sér til að styðja breytingatillögu Samfylkingarinnar um að leggja héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra til aukið fé vegna rannsóknar á Samherjamálinu. 

Bjarni Benediktsson sagði það vera alvarlegt mál að formaður sjtórnmálaflokks stígi í pontu og lýsti því yfir að hann teldi að Íslandi sé líkt við spillingarbæli. Frekar ætti að horfa til þess hvernig tekið væri á málum eins og Samherjamálinu þegar þau koma upp. Bjarni sagði að ríkisstjórnin ætlaði að taka málinu alvarlega og láta viðeigandi stofnanir um að rannsaka það. Þau myndu fá nægjanlegt fjármagn til að leysa þau verkefni sem þeim væri ætlað að leysa. „Því verður ekki haldið fram um þessa ríkisstjórn að hún ætli ekki að taka þessu máli alvarlega,“ sagði Bjarni. 

„Hér er grái listinn nefndur. Má ég vekja athygli háttvirts þingmanns á því að það er til annar listi sem heitir svarti listinn. Grái listinn er fyrir þau lönd sem eru til athugunar vegna þess að þau hafa ekki uppfært lög og sett í farveg þá verkferla sem kallað er eftir. Grái listinn er ekki dæmi um spillingu á Íslandi. Þú ert bara í ruglinu með nálgun á það mál. Það er sömuleiðis algjör þvæla að segja að það sé íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu að kenna hvernig atburðarrásin hefur verið í þessu máli,“ segir Bjarni. 

Eftir að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hafði slegið í bjölluna til merkis um að tíminn sem ætlaður var undir fyrirspurnina væri liðinn héldu þeir Logi og Bjarni áfram að skiptast á orðum. Steingrímur tók þá fram að ef þeir ætluðu að halda áfram yrðu þeir að ræða málin í matsalnum. 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi