Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Óttast að fleiri tengist ódæðinu

25.07.2011 - 18:00
Bæði í Svíþjóð og í Bretlandi reyna yfirvöld að komast til botns því hvort norski hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik hafði tengsl við einstaklinga eða samtök sem aðhyllast hægri öfgastefnu eða múslimahatur. Öryggisgæsla hefur verið aukin við opinberar byggingar í Stokkhólmi.

Enginn veit hvort Anders Behring Breivik var að segja satt eða hvort hann var að reyna að afvegaleiða lögregluna þegar hann sagði frammi fyrir dómara í morgun að hann ætti sér samstarfsmenn í tveimur virkum sellum. Lögreglumaður sem ræddi við dagblaðið Verdens gang undir nafnleynd sagði að mikill ótti hefði verið við það innan lögreglunnar að hryðjuverkamenn myndu láta til skarar skríða í dag, daginn sem fjöldamorðinginn var leiddur fyrir dómara.

Það eykur á óttann að lögreglan hefur ekki fundið öll þau efni sem talið er að Breivik hafi sankað að sér til sprengjugerðar. Þá birtir Verdens gang í dag viðtal við verslunarstjóra í Osló, sem afgreiddi Breivik í vor þegar hann kom þangað í þeim erindagjörðum að kaupa tilbúinn áburð. Verslunarstjórinn minntist hans sérstaklega vegna þess að honum var mikið í mun að fá upplýsingar um efnainnihald áburðarins í minnstu smáatriðunum og varð reiður þegar hann fékk ekki eins nákvæm svör og hann óskaði, enda varð ekkert af kaupunum.  Mikilvægast við upplýsingar verslunarstjórans er þó það að með Breivik í för var annar maður, norskur og á svipuðum aldri, en mun minni vexti. Verslunarstjóranum virtist sem þeir væru nánir samstarfsmenn eða vinir. Breivik keypti svo sex tonn af tilbúnum í annarri verslun.

Tilkynnt var í Osló í dag að allir flokkar landsins hefðu orðið ásáttir um að fresta kosningabaráttu vegna sveitarstjórnarkosninganna í september fram í miðjan ágúst, en að öllu eðlilegu hefði hún hafist í byrjun ágúst.