Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óttast að erfitt yrði að koma fólki burt

12.06.2019 - 19:24
Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun / RÚV
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri Vesturlands, furðar sig á því að vegurinn um sumarhúsabyggðina í Skorradal hafi ekki verið bættur en viðbragðsáætlun hefur verið virkjuð vegna hættu á gróðureldum. Flóttaleiðir úr dalnum séu slæmar. Árni Hjörleifsson, oddviti Skorradalshrepps, sagði í hádegisfréttum RÚV að allir væru á varðbergi.

 

Viðbragðsáætlun hefur verið virkjuð vegna hættu á gróðureldum á Vesturlandi, einkum Skorradal. 

„Ef við horfum á Skorradalinn þá hefur ekki rignt þar síðan 10. maí. Þetta er auðvitað hættuástand vítt og breitt. Allir eru hvattir til að fara gætilega með eld,“ segir Úlfar.

Jarðvegurinn er skrjáfþurr á sumarbústaðasvæðinu í Skorradal og stutt í trjágróðurinn. Þar er því mikill eldsmatur.

Skorradalsvatn er 25 kílómetra langt.

„Flóttaleiðir eru ekki góðar, burðaþol vega lítið, vegir mjóir, vatnsöflunarsvæði ekki til staðar,“ segir Úlfar. 

Erfitt sé fyrir slökkvibíla að mæta fólksbílum á flótta. Vegurinn er holóttur, hann er þröngur og ómalbikaður.

„Það er þarna landsvegur í umsjón Vegagerðar. Þetta er slóði. Hann er illfær fólksbílum eða ófær fólksbílum. Það þarf að koma þarna hringvegur.
Þetta snýst um að koma fólki í burtu þegar eitthvað fer úrskeiðis og það er vandamál. Við höfum af því áhyggjur. Mikið talað um úrbætur en það fer minna fyrir framkvæmdum. Af því hef ég áhyggjur. Reynsla er að það er gríðarlega erfitt að hemja svona eld. Slökkvilið, viðbragðsaðilar allt að því varnarlausir. Við sjáum það allt í kringum okkur. Gott fyrir stjórnvöld að velta þessu fyrir sér. Skorradalshreppur er fámennur hreppur. Þar búa á sjötta tug einstaklinga en gríðarlegur fjöldi yfir sumartímann,“ segir Úlfar.

Á vef almannavarna er fólk hvatt til að bleyta gróður í kringum hús og huga að brunavörnum eins og slökkvitækjum og reykskynjurum.