Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Óttast að dregið verði úr sjálfstæði dómsvalds

03.01.2018 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lagaprófessor segir að afskipti ráðherra af skipan dómara vekji áhyggjur um að dregið sé úr sjálfstæði dómsvaldsins. Þá virðist ráðherra enga pólitíska ábyrgð bera á því að hafa verið dæmdur fyrir brot á lögum.  

Björg Thorarensen, lagaprófessor við Háskóla Íslands, segir  slæmt að ágreiningur ríki um hvernig velja eigi dómara. Það hafi gerst ítrekað á síðustu árum að ráðherra sé dæmdur fyrir að hafa brotið lög við skipan dómara.

„Afleiðingar af því eru eingöngu þær að ríkið er dæmt skaðabótaskylt. Pólitísk ábyrgð ráðherra á því er engin. Samkvæmt 14. grein stjórnarskrár ber ráðherra ábyrgð á embættisathöfnum öllum og verður þá sóttur fyrir landsdómi fyrir embættisbrot. En eins og menn vita þá er það eingöngu í alvarlegustu tilvikum sem slíkt myndi gerast, að embættisbrot sé svo alvarlegt. Rökin með því að ráðherra hafi endanlegt skipunarvald og sé ekki bundinn af þessum tillögum, er að hann ber ábyrgðina. En í rauninni virðist sem, alla vega í framkvæmdinni, birtist engin slík ábyrgð og henn tekur í raun enga ábyrgð á því að hafa verið dæmdur brotlegur,“ segir Björg.

Þessi þróun núna gefur hún tilefni til þess að hafa áhyggjur af því að dómskerfið og dómsvaldið sé ekki eins sjálfstætt og það á að vera? „Já, að mínu mati gefur það alveg tvímælalaust tilefni til að hafa slíkar áhyggjur eða vekja upp slíkar spurningar. Og sérstaklega ef það stefnir í það núna, sem kannski má ætla, að það verði kannski fastur liður að Alþingi samþykki frávik ráðherra frá tillögum dómnefndar. Þegar það var sett inn árið 2010, var það m.a. gert að danskri fyrirmynd þar sem ráðherra hefur aldrei vikið frá tillögum dómnefndar, þar sem sitja sérfróðir menn til að meta hæfni umsækjenda. En þetta gerðist samt hér á síðasta ári. Og miðað við umræðuna hér og fréttir síðustu daga sýnist mér eins og það eigi frekar að undirbúa þann farveg að gera þetta mögulega að reglu að Alþingi samþykki, og hafi endanlega ákvörðunarvaldið um að skipa dómara, umfram það sem lagt er til af hæfnisnefnd. Það er þróun sem mér finnst ástæða til að hafa áhyggjur af,“ segir Björg.