Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Óttarr bregst við orðum Ástrósar

30.03.2017 - 21:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Það er þyngra en tárum taki að heyra þessa sögu og vita að þetta hefur viðgengist hjá þjóð sem ætti að vera rík,“ segir Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra í færslu á Facebook þar sem hann bregst við myndbandi Ástrósar Rutar Sigurðardóttur. Ástrós lýsti í kvöld reiði og sorg yfir þeim mikla kostnaði sem leggst á hana og mann hennar vegna ólæknandi krabbameins sem hann glímir við.

Óttarr segir frá því í færslu sinni, eins og komið var inn á í frétt RÚV í kvöld, að nýtt greiðsluþátttökukerfi taki gildi 1. maí. Því sé „einmitt ætlað að koma í veg fyrir svona harmleiki“. Þar eigi að heyra til algjörra undantekninga að nokkur greiði meira en 50 þúsund krónur á tólf mánaða tímabili. Undantekningin er ef fólk eigi enga sjúkrasögu og detti „mjög illa“ á milli afsláttartímabila og þá sé hámarkskostnaður 70 þúsund krónur. 

Óttarr segir að flestir fái meiri afslátt af gjaldtöku fyrir heilbrigðisþjónustu. Þannig eigi kerfið að jafna greiðslum á alla svo „stórnotendur“ borgi ekki meira en 50 þúsund krónur á tólf mánaða tímabili. Einhverjir sem þurfi sjaldan á heilbrigðisþjónustu að halda þurfi mögulega að greiða meira en áður. Einn milljarður króna var settur í þetta verkefni. Börn, aldraðir og öryrkjar greiða almennt ekki meira en 33 þúsund krónur, en í einhverjum tilfellum 46 þúsund.

„Einhverjir munu hækka innan þessara marka en það greiða heldur engir mörg hundruð þùsund,“ segir Óttarr.