Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ótrúlegt hvað hægt er að breyta landi mikið

Mynd: Ósk Vilhjálmsdóttir / Ósk Vilhjálmsdóttir

Ótrúlegt hvað hægt er að breyta landi mikið

14.06.2018 - 11:08

Höfundar

Í vídeóverkinu Land undir fót horfa áhorfendur nánast út úr hjarta myndlistarkonunnar Óskar Vilhjálmsdóttur. Verkið, sem er hluti sýningarinnar Einskismannsland – ríkir þar fegurðin ein? í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur, gefur innsýn í göngu listamannsins í kringum Hálslón. Fáir aðrir hafa farið alla þá leið eftir að lónið kom til sögunnar fyrir rúmum tíu árum.

Hálslón, uppistöðulón Kárahnjúkavirkjunar, er engin smásmíð frá manna hendi, 57 ferkílómetrar þegar það er í fullri stærð, 25 km langt og 2 km breitt. Ósk Vilhjálmsdóttir, sem barðist gegn byggingu virkjunarinnar, þekkti svæðið vel áður en það fór undir vatn en ákvað að lokum að fara og ganga í kringum lónið. 

Verkið Land undir fót er sett upp á sjö skjái í Hafnarhúsinu og þar er hægt að fylgjast með framvindu göngunnar. Hljóðrásin er búin til úr iðnaðarhljóðum, hreyfing myndavélarinnar er mikil og áhrifin einnig. 

„Ég spenni á mig tvær myndavélar, eina á bringuna og aðra á ennið þegar ég fer af stað. Ég er svo ekkert að hugsa meira um þessar vélar, er bara landkönnuður og það er í rauninni linsan sem ákveður hvað við sjáum. Höfuðið hreyfiðist síðan meira til, þannig að það er taka vélarinnar framan á mér, hjartatakan, sem varð fyrir valinu.“

Úr myndlistarverkinu Land undir fót (2017)
 Mynd: Ósk Vilhjálmsdóttir
Ganga kringum Hálslón er krefjandi.

Alveg breytt land

„Mér leið eins og ég væri í hálfgerðri pílagrímsferð og var mjög forvitin. Ég hafði ekkert farið á þessar slóðir í tíu ár frá því að landið, sem ég þekkti svo vel, fór undir vatn. Ég vildi það ekki og var því viðbúin að ég yrði rosalega reið. En þegar ég var komin var ég aðallega forvitin og hissa yfir því hvað það er hægt að breyta landi mikið. Þetta er alveg ný náttúra og ef maður hefði ekki fjöllin, Herðubreið, Snæfell og Kverkfjöll til að miða sig við, þá vissi maður ekkert um það hvar maður væri í heiminum. “

Hér í viðtalinu fyrir ofan er rætt ítarlega við Ósk um verkið og þar heyrast líka brot úr hljóðrás verksins.

 

Úr myndlistarverkinu Land undir fót (2017)
 Mynd: Ósk Vilhjálmsdóttir
Hér sést hvernig hnausþykk börð hafa myndast við lónið.