Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ótrúleg sigurganga Juventus

epa06734295 Juventus' players celebrate the victory of the championship after the Serie A soccer match between AS Roma and Juventus FC at the Olimpico stadium in Rome, Italy, 13 May 2018.  EPA-EFE/RICCARDO ANTIMIANI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA

Ótrúleg sigurganga Juventus

14.05.2018 - 10:18
Juventus tryggði sér í gærkvöldi ítalska meistaratitilinn í fótbolta karla. Það er fyrir löngu hætt að teljast til tíðinda enda er ákaflega algengt að Juventust vinni. Þetta var sjöundi titill þeirra í röð.

Juventust vann titilinn á ítalskasta máta sem til er; með steindauðu markalausu jafntefli gegn Roma. Roma lék meira að segja einum færri frá 68. mínútu þegar Radja Nainggolan fékk sitt annað gula spjald.

Titill gærkvöldsins var sá sjöundi í röð hjá Juventus og sá 34. frá upphafi. Bæði er met.

Hátt fall

Juventus hefur lengi verið sigursælasta lið ítalsks fótbolta. Það voru hins vegar dimm óveðursský yfir félaginu árið 2006. Upp hafði komist um umfangsmikið svindl í ítölskum fótbolta og var Juventus í miðju stormsins.

Liðið var dæmt niður í b deild á Ítalíu. Inter Mílanó greip tækifærið fegins hendi og vann fjögur ár í röð; 2007-2010.

Juventus var hins vegar ekki lengi að safna kröftum. Með Antonio Conte í brúnni vann liðið titilinn á nýjan leik vorið 2012. Conte stýrði liðinu tvö ár í viðbót og vann titilinn öll árin.

Hann hvarf svo á braut til að taka við ítalska landsliðinu og síðar Chelsea. Við keflinu tók Massimiliano Allegri. Hann tók Juventus áfram upp á næsta stig. 

Fjórar tvennur í röð

Allegri byrjaði vel með Juve og strax á fyrsta ári vann liðið tvennuna á Ítalíu, deild og bikar. Hann var þar með búinn að setja markið hærra en Conte hafði gert og hefur svo fylgt því eftir. Frá því Allegri tók við hefur Juventus unnið tvennuna öll árin, fjögur í röð. Ekkert annað lið í Evrópu hefur leikið þetta eftir.

Meistaradeildin hefur hins vegar ekki unnist. Juventus vann síðast þá keppni árið 1996. Tvívegis hefur liðið unnið keppnina, fyrra skiptið var 1985.

Tvívegis hefur liðið komist í úrslitaleikinn undir stjórn Allegri en í bæði skiptin orðið að játa sig sigrað. Vorið 2015 tapaði Juventus fyrir Barcelona og í fyrravor var það Real Madrid sem bar sigurorð af þeim.

Hvert næst

Framtíðin er óljós, eins og alltaf. Lið Juventus er farið að eldast og á næstu leiktíð verður enginn Gianluigi Buffon í markinu. Fyrirliðinn aldni vann í gær sinn níunda titil á Ítalíu. Hanskarnir fara á hilluna í sumar. 

Fleiri eru komnir á síðari hluta ferilsins en reyndar hafa Ítalir merkilegt lag á að halda mönnum í fremstu röð vel á fertugsaldurinn. 

Það eru hins vegar lið farin að þjarma að Juve. Napoli hefur undanfarin ár verið þeirra harðasti keppinautur en aldrei sem í ár. Deildin hefur ekki verið svona spennandi lengi. Þá er AC Milan að reyna að rísa úr öskustónni og með fullar hendur fjár frá kínverskum eigendum muni verða sótt að Juventus þaðan.

Svo hefur Allegri verið orðaður við stórlið annars staðar í Evrópu og er talið að hann sé ofarlega á lista hjá Arsenal og Chelsea. Sjálfur hefur hann sagt að hann sé ekki á leiðinni frá Juventus en enginn með réttu ráði leggur lengur fullan trúnað á það sem þjálfarar og leikmenn segja um möguleg vistaskipti.

En er á meðan er og næsta árið getur La Vecchia Signora baðað sig í ljóma 34. meistaratitilsins og 13. bikarmeistaratitilsins.