Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ótímabært að ræða íbúakosningu

04.03.2012 - 13:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ segir mörgum spurningum ósvarað varðandi kaup sorpeyðingarstöðvarinnar Kölku. Það sé ábyrgðarhluti hjá sveitarstjórnarmönnum að taka afstöðu í máli áður en þeir fá rökin upp á borðið.

Bandaríska fyrirtækið Triumvirate Environmental hefur gert tilboð í sorpeyðingarstöðina Kölku í Reykjanesbæ.

Tilboðið hljóðar upp á rúman milljarð íslenskra króna. Fyrirtækið hefur hug á því að kaupa stöðina og flytja inn iðnaðarsorp frá Bandaríkjunum og eyða því hér í brennslu.

Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ, sagði í hádegisfréttum í gær að mikil andstaða væri innan Samfylkingarinnar við þessi áform. Það komi ekki til greina að innflutt sorp frá Bandaríkjunum verið brennt á Reykjanesi.

Böðvar Jónsson, foseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ, segir málið vera skammt á veg komið. Það hafi verið rætt á fundi bæjarráðs á fimmtudag og þar hafi menn verið sammála um að fresta því þangað til ýmsum spurningum hafi verið svarað.

„Og þess vegna kom það mér nokkuð á óvart að Samfylkingin skyldi setja þetta í þennan pólitíska farveg sem hún var greinilega að gera með þessari yfirlýsingu sem hún gaf frá sér í gær.“

Þá segir Böðvar að hugmynd Samfylkingarinnar um íbúakosningu um málið sé ótímabær.
„Hún er ekki inni í myndinni fyrr en stjórnvöld hafa tekið einhverja ákvörðun í málinu og það er engin slík ákvörðun sem liggur fyrir þannig að umræður um íbúakosningu á þessu stigi eru ekki inni í myndinni núna.“

Fyrst þurfi að fá svör við grundvallarspurningum.
„Eins og hvaða sorp er um að ræða, er yfir höfuð heimilt að flytja inn sorp og svo framvegis. Þannig að mér finnst ekki tímabært að taka afstöðu í málinu fyrr en við erum búnir að velta öllum hliðum þess upp. Og mér finnst það ábyrgðarhluti hjá sveitastjórnarmönnum að taka afstöðu í máli áður en þeir fá rökin upp á borðið.“