Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óþolandi að geta ekki varið sérstöðu Íslands

21.02.2019 - 18:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórnarþingmenn hafa brugðist illa við frumvarpi landbúnaðarráðherra sem heimilar innflutning á ófrosnu kjöti. Formaður Framsóknarflokksins segir að frumvarpið leysi úr lagaþvælu við Evrópusambandið en heilsu manna og dýra geti verið ógnað.

Drög að frumvarpinu voru birt í gær, en því er ætlað að bregðast við dómum Hæstaréttar og EFTA-dómstólsins, um að íslensk stjórnvöld hafi brotið gegn EES-samningnum með innflutningstakmörkunum. Í núverandi kerfi þarf sérstakt leyfi Matvælastofnunar til innflutnings á kjöti og eggjum og þarf kjötið að hafa verið frosið í 30 daga. Samkvæmt dómunum brýtur þetta í bága við skuldbindingar Íslands. Ef frumvarpið nær fram að ganga verður heimilt að flytja inn hrátt, ófrosið kjöt, fersk egg og ógerilsneyddar mjólkurvörur frá og með 1. september næstkomandi. 

Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðarráðherra sagði í hádegisfréttum að stjórnvöld ættu ekki annan kost. Samhliða eru kynntar mótvægisaðgerðir til að tryggja matvælaöryggi og vernd búfjárstofna. 

Stjórnarþingmenn á móti

Félag atvinnurekenda fagnar frumvarpinu og samkvæmt heimildum fréttastofu nýtur það stuðnings nokkurra stjórnarandstöðuþingmanna. Bændasamtökin eru á móti, telja að ráðherra hafi gefist upp og hafa nokkrir stjórnarþingmenn Framsóknarflokksins tekið undir þessi sjónarmið. Meðal þeirra er Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður úr Norðvesturkjördæmi. „Hér er um að stórt hagsmunamál um að ræða og við eigum að geta brugðist með því að skapa tíma til að byggja upp varnir sem halda,“ skrifaði Halla Signý á Facebook. 

Frumvarp sem leysi ekki vandann

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segist hafa skilning á því að ráðherra þurfi að bregðast við þessari lagalegu niðurstöðu. Þetta frumvarp leysi hins vegar ekki vandann sem snúist um hvernig eigi að vernda íslenska búfjárstofna. „Sú frábæra sérstaða sem við höfum hvað varðar matvælaöryggi og heilsu manna, henni gæti líka verið ógnað og þess vegna er ekki búið að leysa úr þeim vanda með frumvarpinu þó að frumvarpið leysi úr þessari lagaþvælu við Evrópusambandið og innflutningsöfl á Íslandi,“ segir Sigurður Ingi.

Hann segir of snemmt að segja hvort Framsóknarflokkurinn muni greiða atkvæði með frumvarpinu, enda séu þetta aðeins drög. „En að mínu mati, ef þetta kemur fram óbreytt, þá þarf þingið að taka á ýmsum þáttum þarna inni,“ segir hann. 

Stjórnvöld láti reyna á viðræður við ESB

Þá þurfi að hefja viðræður við Evrópusambandið um sérstöðu Íslands og fara fram á nokkur ár til að undirbúa mótvægisaðgerðir. „Og það er óþolandi að mínu mati hvað þeir ætla að vera harðir á því að viðurkenna ekki að við eigum þann rétt, og skyldu samkvæmt alþjóðasamþykktum, að vernda heilsu búfjár okkar sem með beinni afleiðingu tengist heilsu manna,“ segir Sigurður Ingi.