Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Óþægilegt að sanna að ég sé góð mannvera

Mynd: RÚV / Kiljan

Óþægilegt að sanna að ég sé góð mannvera

14.08.2019 - 13:04

Höfundar

„Ég gríp mig alltaf við það að vilja gera eitthvað allt annað en mér þykir að sé augljóst,“ segir rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl og telur það nokkuð mikinn löst á sér sem listamanni. „Þá hlýt ég að vera dæmdur til þess að valda lesendum mínum stöðugum vonbrigðum.“

Eiríkur segist upplifa það þannig að þegar hann skilar einhverju af sér búist lesendur við að hann haldi áfram á sömu braut í framhaldinu. „Þegar ég gaf út Illsku fannst mér eins og væri ætlast til þess að ég tæki að mér að vera Andri Snær and-rasismans. En ég bara gat það ekki, ég gerði ekki annað í ár en að biðja fólk að láta mig í friði með alla pólitík.“ Í staðinn var næsta verkefni hans bók um plokkfisk.

Vegir tröllsins og listamannsins skarast

Síðasta skáldsaga Eiríks, Hans Blær, fjallar um trans manneskju í hlutverki trölls sem er stöðugt að leita að veiku blettunum í menningunni, staðsetja mörkin, og ganga svo yfir þau. Sér Eiríkur sig sem höfund stundum í svipuðu hlutverki, að pota í vitlausa bein samfélagsins? „Að einhverju leyti held ég að vegir listamannsins og tröllsins skarist. Tröllið og listamaðurinn vita ekki alltaf hver þau vilja að viðbrögðin við verkum þeirra verði. Þau eru bara að leita að einhverjum viðbrögðum og setja eitthvað á hreyfingu.“

Hans Blær fékk ágætisgagnrýni en var þó heldur lítið áberandi í jólabókaflóðinu. Eitthvað af því kann að skýrast af því að leikrit byggt á bókinni var sýnt í Tjarnarbíói um hálfu ári áður en hún kom út, en þá mótmælti sumt trans fólk efnistökunum og taldi verkið geta ýtt undir fordóma. Eiríkur segir að alvöru umræða um verkið hafi í raun aldrei átt sér stað. „Leiksýningin var sýnd fimm sinnum í Tjarnarbíói. Ég hef varla selt ljóðabækur í svona fáum eintökum, hún selst í rúmlega 200 eintökum, algjört þannig flopp. En hún fékk mjög fínar krítískar viðtökur.“ Hann hafi mikið brotið heilann um af hverju það stafi og hvað það merki. „Einn angi af samfélaginu er að við erum stöðugt að takast á við hluti með miklum ópum og látum. Og hins vegar að gæta sín á því að gera það ekki.“ Það sem hafi gerst í tilviki Hans Blævar er að viku áður en leikritið var frumsýnt hafi komið hörð gagnrýni frá áberandi trans aktívista. „Sem ég held að hafi sleginn tóninn fyrir það – þá ertu lentur í þeirri aðstöðu sem listneytandi að þurfa strax að taka afstöðu.“

Hatað af bæði woke-vinstrinu og Trump-istum

Eiríkur segir að það hafi komið beiðnir frá framáfólki úr hinsegin samfélaginu um miða á leikritið, sem hafi verið veittir, en engin frekari viðbrögð borist úr þeirri átt. „Ég sendi bréf og spurði hvort þau hefðu farið, en fékk ekkert svar. Það var heldur ekkert opinbert svar. Ég áttaði mig allt í einu á því að þetta er ekki þannig verk að það sé hægt að gefa því heilbrigðisvottorð. En þú getur eiginlega heldur ekki farið að fordæma það. Vegna þess að þetta er listaverk, augljóslega, og býður ekki upp á það að þú getir talað um það sem áróður.“

Mynd: RÚV / Kiljan
Eiríkur Örn mætti í Kiljuna fyrir jól og las upp úr bókinni.

Þannig lendi verkið í raun á sama stað og Hans Blær sjálft, annars vegar trans manneskja, og hins vegar tröll, og sem slíkt alltaf á milli. „Ef þú ert vinstra megin og woke, er hán frábært fyrir að vera trans manneskja og uppfylla sjálft sig, en hrikalegt fyrir að vera þetta hægra tröll. En ef þú ert Trump-megin í tilverunni er hán frábært að standa vörð um tjáningarfrelsið og brjóta niður aumingjaskapinn, en þetta trans er náttúrulega rugl. Þannig þú getur aldrei verið með hánum í liði, eða einu sinni á móti hánum.“

En er þá hægt að vera með Eiríki í liði eða á móti? Honum er sjálfum alls ekkert gefið um að staðsetja sig opinberlega. „Hann Hulli var dálítið gagnrýndur, og hann var alltaf að senda frá sér woke yfirlýsingar um hitt og þetta. Vegna þess að listin hans er alltaf að stíga yfir þessi mörk, þess vegna þurfti hann að staðsetja sig mjög rækilega innan woke-rammans til að geta haldið áfram með hana. Mér finnst það ekki þægilegt, mér finnst bara óþægilegt að staðsetja mig almennt. Ég get reyndar sagt að ég er ekki Trump-megin í tilverunni, ég er ekki hægri maður, ég er sósíalisti og ýmislegt. En mér finnst mjög óþægilegt að þurfa að sanna að ég sé góð mannvera, frekar en að listaverkið fái að standa með sjálfu sér.“

Eintómir hvítir fertugir karlmenn eru vandamál

Gagnrýnin sem beindist að leikritinu áður en það var sýnt sneri einna helst að því að Eiríkur sem gagnkynhneigður karlmaður væri að segja sögu trans manneskju, og vafasamrar slíkrar í þokkabót. Þessi umræða um hver má segja hvaða sögu, hvernig slær hún þig? „Kneejerk-viðbrögðin mín eru bara „Æji djíses, fokkið ykkur.“ En auðvitað er þetta flóknara. Auðvitað eiga allir að geta sagt allar sögur. Stór hluti af því að búa til list, segja sögur, er að setja sig í spor annarra. Sem rithöfundur setur maður sig í spor fjölda manns í hverri einustu bók. Ef það væri allt fertugir hvítir kallar þá væru bækurnar mínar ekki sérstaklega áhugaverðar. Hins vegar ef allar sögur eru skrifaðar af hvítum fertugum karlmönnum, þá skapast vandamál.“

Þannig geti auðveldlega skapast menningarleg skekkja sem hafi ekkert að gera með stök verk, heldur útgáfuna alla. „Þess vegna er mjög mikilvægt að við opnum fyrir sögur hvort sem þær eru úr innflytjendasamfélaginu eða trans eða öðrum minnihlutasamfélögum. Að við fáum breidd, sögurnar séu líka sagðar innan úr samfélögunum,“ segir Eiríkur. „Meðal annars til þess að fertugir hvítir karla geti líka gert það, því þetta er íþyngjandi fyrir alla sem eiga aðild að samfélaginu.“

Halla Þórlaug Óskarsdóttir og Kristján Guðjónsson ræddu við Eirík Örn Norðdahl í Tengivagninum. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í Spilaranum þar sem Eiríkur Örn valdi tónlist með þemanu „vitlausa beinið“.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Afhjúpar samtímann og skýtur í allar áttir

Bókmenntir

Tekist á við tabúin og rótað í forminu

Bókmenntir

„Ég er ekki í bókmenntalöggunni“

Leiklist

Hán Hans Blær er bæði reitt og frjálst