Ótækt að fela einkaaðila allt skólastarf

04.10.2012 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Foreldrar barna í grunnskólanum á Tálknafirði leituðu til Félags grunnskólakennara vegna áhyggna sinna af skólastarfi á Tálknafirði eftir að Hjallastefnunni var falinn rekstur skólans þar.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur sent oddvita Tálknafjarðarhrepps bréf þar sem bent er á að Hjallastefnan megi ekki reka eina grunnskóla hreppsins. Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara segir hvorki félagið né Kennarasambandið beinan aðila að málinu en spurningar foreldra sem leituðu til félagsins hafi verið þess eðlis að þeim hafi verið beint áfram til ráðuneytisins.

Foreldrar hafi spurt hvort þessi aðili hefði leyfi til að starfrækja skóla á svæðinu eða á staðnum og svo hitt hvort það væri eðlilegt að heilt sveitarfélag fæli þriðja aðila allan rekstur skóla á svæðinu. Þetta hafi brunnið á foreldrum sem höfðu samband við félagið. 

Ólafur segir allt málið mjög sérstakt og varla hægt að átta sig á því að hvernig sveitarfélagið geti talið nokkurn vafa leika á því hvort skólinn hafi starfsleyfi eða ekki. Í svari ráðuneytisins virðist alveg skýrt að svo sé ekki. Hann á ekkert svar við því hver sé þá staða nemenda og starfsmanna við skólann. Hann viti varla hvernig eigi að orða það að þarna sé starfandi skóli án þess að vera starfandi. Alveg sé ljóst að aðilinn sem rekur skólann hafi ekki leyfi. 

Ólafur segir þetta ekkert hafa með Hjallastefnuna að gera en hjá Félagi grunnskólakennara séu menn á þvi að það sé ekki tæk ráðstöfun að fela þriðja aðila allt skólastarfið. Í því sé ekkert vit og þá skipti engu hver eigi hlut að máli. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi