Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Öskuský enn yfir flugvöllum

25.04.2010 - 09:54
Mynd með færslu
 Mynd:
Öskuský er enn yfir millilandaflugvöllum á Íslandi ef marka má gjóskudreifingarspá bresku veðurstofunnar.

Samkvæmt korti sem birt var á vefsíðu hennar klukkan sex í morgun eru Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur á afmörkuðu svæði þar sem blindflug er ekki leyft en flugvellirnir á Akureyri og Egilsstöðum á svæði þar sem slíkar heimildir eru veittar á ábyrgð flugrekanda. Þetta gæti þó breyst hvað Egilsstaðarflugvöll varðar síðar í dag. Tvær flugvélar lengu á Akureyrarflugvelli um miðnætti í gærkvöldi. Athugað verður með innanlandsflug á ellefta tímanum á eftir.

 Jarðvísindamenn sáu greinilega breytingar þegar þeir flugu yfir Eyjafjallajökul í gær. Hraun er farið að renna úr eldstöðinni og hjá Gígjökli. Öskumistur lá yfir Suður- og Suðvesturlandi í gær. Hætta á stórhlaupi er lítil. Því er spáð að gosaska berist til vesturs frá Eyjafjallajökli í dag, en rigning dragi úr öskumistri, einkum fjær eldstöðinni. Lítilsháttar öskumistur geti þó borist til Reykjavíkur og einnig til Norðvesturlands.

Nóttin var róleg í grennd við gosstöðvarnar á Eyjafjallajökli að því er fram kemur í tilkynningu frá Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra. Lögreglan á Hvolsvelli á í dag von á hátt í hundrað sjálfboðaliðum, björgunarsveitarmönnum, félögum í jeppaklúbbnum fjórum sinnum fjórir (4x4), fólki af Fésbókarsíðu og fleirum, sem býður fram frekari aðstoða við hreinsun og landbúnaðarstörf á bæjum undir Eyjafjöllum. Fólkið mun auk þess taka við gæslu á eftirlitsstövum við gömlu Markarfljótsbrúnna og innarlega í Fljótshlíð