Öskufallið mun ná víða

15.04.2010 - 17:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Þorsteinn Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að öskufall úr eldgosinu í Eyjafjallajökli muni ná yfir Skandinavíu, Bretlandseyjar, Benelux-löndin og allt austur að Póllandi næsta sólarhringinn. Hann telur jafnframt líklegt, að haldi gosið áfram af sama styrk, að aska úr eldgosinu geti borist um allt norðurhvel jarðar.

Eldgosið í Eyjafjallajökli hefur valdið gríðarlegu öskufalli austanmegin við eldstöðvarnar í dag. Verst hefur ástandið verið á austanverðum Mýrdalssandi, Meðallandi og í Álftaveri og Skaftártungum og þá hafa borist fregnir af öskufalli á Kirkjubæjarklaustri en ekki austar en það.

Á morgun er búist við norðanátt og þá má reikna með að aska dreifist yfir byggðir fyrir neðan Eyjafjöll og í Vestmannaeyjum. Þá gera spár Veðurstofunnar ráð fyrir að aska muni dreifast víðar yfir Evrópu með háloftavindum á næstu sólarhringum.

„Spár gera ráð fyrir því að þessa helgi þá dreifist askan yfir stóran hluta Skandinavíu, Benelux-löndin, Bretland, Írland, norðurhluta Frakklands og vesturhluta Þýskalands, gæti jafnvel náð til Póllands og Eystrasaltslandanna þegar komið er fram á sunnudaginn,“ segir Þorsteinn . „Þetta eru helstu svæðin sem það gæti mögulega fallið aska.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi