Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óskarsleikararnir fá tugmilljóna skrautlegar gjafir

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

Óskarsleikararnir fá tugmilljóna skrautlegar gjafir

05.02.2020 - 14:32

Höfundar

Þrátt fyrir að það geti ekki allir farið heim sem sigurvegarar eftir Óskarsverðlaunahátíðina í Los Angeles á sunnudag er það síður en svo að hinir fari tómhentir á braut. Allir þeir sem eru tilnefndir til verðlauna í flokkum aðal- og aukaleikara, aðal- og aukaleikkvenna og leikstjóra fá nefnilega gjafapakka að andvirði yfir 30 milljóna króna.

Í umfjöllun bandaríska tímaritsins Forbes er kafað ofan í þennan gjafapakka, sem er á vegum markaðsfyrirtækis en ekki hátíðarinnar sjálfrar. Andvirði pakkans er um 215 þúsund dollarar, um 31,4 milljónir króna, og er það næstum tíu milljónum meira en andvirði pakkans í fyrra. Því til samanburðar þá kostar um 400 dollara, um 50 þúsund krónur, að framleiða hinar eftirsóttu Óskarsverðlaunastyttur.

Meðal þess sem er í pakkanum er gjafabréf í 12 daga siglingu á snekkju með lúxusþjónustu, heilsulind, tveimur þyrlum og kafbáti um borð. Andvirði þess pakka er tæplega 80 þúsund dollarar, yfir tíu milljónir króna, en meðal annars er hægt að velja hvort siglt er um Miðjarðarhaf eða að Suðurskautslandinu.

Dekurpakkar eru klassískar gjafir. Kannski ekki í þessu magni, en andvirði slíkra gjafa í þessum pakka er um 25 þúsund dollarar eða yfir þrjár milljónir króna hjá fegrunarlækninum dr. Konstantin Vasyukevich.

Þá leynast einnig í pakkanum baðbombur með 24 karata gulllaufblaði, snjallbrjóstahaldari sem mælir nákvæmar skálastærðir og þvagprufusafnarinn Peezy Midstream, sem á að gefa nákvæmari niðurstöður um mögulegar sýkingar. Ódýrasti hluti pakkans er poki af súkkulaðikökum að andvirði fimm dollara, eða rúmlega sex hundruð króna, fyrir tíu kökur.

Mynd með færslu
 Mynd: Peezy Midstream
Þvagprufusafnarinn Peezy Midstream.

Venjulega eru það 25 einstaklingar sem fá gjafapakkann stóra, en í ár eru það 24 vegna þess að Scarlett Johansson er bæði tilnefnd sem besta aðal- og aukaleikkona. Það var talið nóg að hún fengi einn pakka.

Þau sem tilnefnd eru í flokkunum fimm og fá pakkann eru eftirfarandi:

Besti leikari í aðalhlutverki

 • Antonio Banderas - Pain and Glory
 • Leonardo DiCaprio - Once Upon a Time in Hollywood
 • Adam Driver - Marriage Story
 • Joaquin Phoenix - Joker
 • Jonathan Pryce - The Two Popes

Besta leikkona í aðalhlutverki

 • Cynthia Erivo - Harriet
 • Scarlett Johansson - Marriage Story
 • Saoirse Ronan - Little Women
 • Charlize Theron - Bombshell
 • Renee Zellweger - Judy

Besti leikari í aukahlutverki

 • Brad Pitt - Once Upon a Time in Hollywood
 • Al Pacino - The Irishman
 • Joe Pesci - The Irishman
 • Tom Hanks - A Beautiful Day in the Neighborhood
 • Anthony Hopkins - The Two Popes

Besta leikkona í aukahlutverki

 • Laura Dern - Marriage Story
 • Margot Robbie - Bombshell
 • Florence Pugh - Little Women
 • Scarlett Johansson - Jojo Rabbit
 • Kathy Bates - Richard Jewell

Besti leikstjóri

 • Martin Scorsese - The Irishman
 • Todd Phillips - Joker
 • Sam Mendes - 1917
 • Quentin Tarantino - Once Upon a Time in Hollywood
 • Bong Joon Ho - Parasite

Tengdar fréttir

Tónlist

Hildur Guðnadóttir í fríðu föruneyti Óskarsbiðla

Menningarefni

Getur unnið þrenn verðlaun á tæpum tveimur vikum

Kvikmyndir

Joker með flestar tilnefningar til Óskarsverðlauna

Kvikmyndir

Hildur tilnefnd til Óskarsverðlauna