Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Óskar rannsóknar á þætti fleiri lögregluþjóna

30.03.2017 - 17:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur óskað eftir því við héraðssaksóknara að hann rannsaki ítarlegar en áður atvik sem leiddi til þess að lögregluþjónn var ákærður fyrir að beita mann harðræði í fangaklefa. Meðal þess sem á að skoða er hvort fleiri lögreglumenn hafi brotið gegn starfsskyldum sínum með þvi að tilkynna ekki um málið. Jafnframt hefur verið óskað eftir að ríkislögreglustjóri geri úttekt á vinnubrögðum lögreglunnar eftir að kæra barst.

„Við höfum bent héraðssaksóknara á það að þarna kunni fleira að vera til rannsóknar og óskum eftir að þetta atvik sem þarna átti sér stað verði rannsakað ítarlegar,“ segir Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfestir að þessi angi málsins sé kominn til meðferðar hjá embættinu en vill ekki tjá sig frekar um það á þessu stigi.

Lögregla vissi af kærunni strax 3. júní

Héraðssaksóknari gaf út ákæru á hendur lögregluþjóninum 17. mars. Honum er gefið að sök að hafa ráðist á mann 16. maí í fyrra þegar verið var að færa hann úr fangageymslu, ógnað honum og meðal annars skellt höfði hans tvisvar í gólfið.

Lögregluþjóninum var ekki vikið úr starfi fyrr en eftir að ákæra var gefin út, tíu mánuðum eftir atvikið sjálft og níu og hálfum mánuði eftir að lögreglan fékk upplýsingar um það frá héraðssaksóknara að kæra hefði borist.

Jón H. B. Snorrason sagði við Vísi í gær að hann hafi ekki haft upplýsingar um hvers eðlis málið væri fyrr en í janúar síðastliðnum. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir hins vegar að lögreglunni hafi verið tilkynnt um kæruna sjö mánuðum fyrr.

„Okkur barst þessi kæra 24. maí og lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu var send melding um það 3. júní þar sem var kallað bæði eftir gögnum og tilkynnt að kæran hefði borist. Með því bréfi var lögreglustjóra einnig boðið að koma að athugasemdum í málinu,“ segir Ólafur. Einhver slík athugasemd hefði síðan borist 21. júní, þótt smávægileg hefði verið.

„Kerfislæg mistök“ segir aðstoðarlögreglustjóri

Jón H. B. Snorrason kannast við þessa atburðarás.

„Í þeim bréfum sem ég fékk til þess að vinna út frá gat ég ekki alveg lesið hvers eðlis þetta brot var. Það var alveg klárt að hann var að tilkynna um að það væri verið að byrja rannsókn á lögreglumanni og óska eftir gögnum um málið sem var til rannsóknar á hendur kæranda. Það er ekki við embætti héraðssaksóknara að sakast í þessu.“

Aðrar upplýsingar en þessi tiltekna beiðni um gögnin, vegna kæru á hendur lögreglumanni, hafi aldrei borist honum.

Hann segist hafa sent gögnin 21. júní ásamt athugasemdinni. „Ég sagði að ekki yrði ráðið af þessum gögnum hvernig nafngreindur lögreglumaður kæmi að máli kæranda,“ segir Jón.

En þegar þú færð upplýsingar um að það sé búið að leggja fram kæru á hendur lögreglumanni hjá þér, skoðarðu það þá ekki nánar?

Í mínum huga var aðalatriði málsins að liðka fyrir því að rannsókn gæti gengið vel fyrir sig hjá héraðssaksóknara – það var mér efst í huga að klára þetta fljótt og vel. Ég gerði þess vegna enga sérstaka athugun á því hvers eðlis þetta væri. Við fengum síðan ábendingu frá héraðssaksóknara þegar hann áttaði sig á því að við vissum ekki alveg hvað málið snerist um,“ segir Jón.

Voru það mistök af þinni hálfu að skoða þetta ekki betur í fyrrasumar?

„Við höfum sagt að það hafi verið gerð mistök við að greina þetta. Ég ætla ekki að fara að benda á aðra, en þetta voru ekki mín mistök. Þetta voru kerfislæg mistök.“

Óskað eftir úttekt ríkislögreglustjóra á vinnubrögðunum

Í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gær kemur fram að óskað hafi verið eftir því við Ríkislögreglustjóra að gerð verði óháð úttekt á vinnubrögðum embættisins í málinu.

„Vaknað hafa spurningar um hvort víkja hefði átt honum frá störfum um leið og málið kom upp. Mistök voru gerð í þeim efnum og tryggja þarf að slík mál fái afgreiðslu strax,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir enn fremur: „Valdbeitingarheimildum lögreglu fylgir mikil ábyrgð og það felur í sér að öll mál sem varða misbeitingu þess séu skoðuð í kjölinn. Óháð úttekt á vinnubrögðum er liður í því enda mikilvægt að leiða í ljós hvort brotalamir kunni að vera fyrir hendi við meðferð slíkra mála hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu svo tryggja megi að þau fái rétta meðferð í framtíðinni.“

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri segist ekki hafa neinu að bæta við tilkynninguna eða orð Jóns. Hún vísar á Jón, sem fari með málið fyrir hönd embættisins.