Óskar formlega eftir að leyndinni verði aflétt

23.02.2020 - 11:34
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Landsvirkjun hefur óskað formlega eftir því við Rio Tinto, eiganda álversins í Straumsvík, að trúnaðarákvæðum verði aflétt af rafmagnssamningi fyrirtækjanna þannig að hægt verði að ræða opinberlega um meginefni samningsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun en Hörður Arnarson, forstjóri fyrirtækisins, ræddi þetta líka í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgunni í morgun.

„Við teljum æskilegt og í anda gagnsæis að það væri upplýst meira um samninginn og þess vegna skrifuðum við bréf til Rio Tinto í síðustu viku þar sem við höfum óskað formlega eftir því við fyrirtækið að trúnaði sé aflétt af samningnum,“ sagði Hörður Arnarson.

Hörður sagði mikilvægt fyrir samfélagið að trúnaði sé aflétt. Í honum væru meðal annars ákvæði um endurskoðun sem eiga að tryggja samkeppnishæfni verksmiðjunnar og væri til mikils gagns fyrir alla að trúnaði yrði aflétt af þessum samningi þannig að aðilar gætu rætt um hann opinberlega.

Fyrr í mánuðinum tilkynntu stjórnendur álversins í Straumsvík að Rio Tinto, eigandi álversins, væri með rekstur álversins í endurskoðun. Þar væri allt undir, meðal annars að draga úr framleiðslu eða jafnvel að loka álverinu. Rannveig Rist, forstjóri álversins, sagði að verðið á orkunni, sem álverið kaupir af Landsvirkjun, sé of hátt. Við sama tilefni kallaði Rannveig eftir því að leyndinni af samningnum yrði aflétt. 

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi