Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Óskar eftir fundi um Reynisfjöru

24.08.2019 - 19:04
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Ferðamálaráðherra hefur óskað eftir fundi með umhverfisráðherra vegna hættu á frekara berghruni í Reynisfjöru. Það sé áhyggjuefni að vita af fjölda fólks á stað þar sem slys hafa orðið. 

Mikil mildi þykir að enginn hafi verið í Reynisfjöru þegar stór skriða féll þar snemma á þriðjudagsmorgun. Grjóthrun varð á sama stað daginn áður og maður sem varð fyrir því höfuðkúpubrotnaði. Enn er töluverð hætta á berghruni úr Reynisfjalli. Bergið er mjög óstöðugt og sprunga í því nokkuð vestar en þar sem skriða féll á þriðjudag en þó innan þess svæðis sem girt hefur verið af fyrir ferðamönnum. Hundruð ferðamanna koma í Reynisfjöru á degi hverjum. Á miðvikudag þurfti að reka 30 ferðamenn frá lokuðu hættusvæði.

„Þetta er einn af þeim áfangastöðum þar sem slysin hafa orðið og auðvitað hefur maður áhyggjur af því þegar fjöldi fólks fer á svæði og það verða slys,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra. 

Telurðu ekki að það verði að grípa til einhverra aðgerða?

„Við höfum gripið til ákveðinna aðgerða. Það hafa verið upp þarna skilti og bætt verulega úr því. Við settum af stað vinnu við þessa ölduvakt með fjármagni úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða vegna þess að hingað til hefur hættan aðallega verið vegna þess. Það eru auðvitað alltaf ákveðin takmörk hversu mikið er hægt að vara fólk við ef það fer augljóslega fram hjá og yfir merkingar þess efnis, þá á endanum ber fólk náttúrulega ábyrgð á sjálfu sér,“ segir Þórdís.

Unnið sé að því að bæta merkingar enn frekar og Þórdís fagnar skjótum viðbrögðum þeirra sem að málinu komi. Þá þurfi að skoða hvort setja þurfi upp mæla þannig að Veðurstofan geti vaktað Reynisfjall og hvort þörf sé á landverði. Hvort tveggja heyrir undir umhverfisráðherra. Þórdís hefur óskað eftir fundi með honum.

„En hvort svona vöktun væri þá á sviði umhverfisráðuneyti og undirstofnana þess, það er eitthvað sem við þurfum að skoða sérstaklega,“ segir Þórdís.