Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Óskaplega skýrt - meirihlutinn ræður“

16.03.2015 - 16:22
Mynd: RÚV / RÚV
Mynd: RÚV / RÚV
Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu ríkisstjórnina og forseta Alþingis þegar taka átti stöðu Alþingis og yfirlýsingu forseta Alþingis til umræðu vegna ESB-málsins.. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði málið óskaplega skýrt - meirihlutinn ræður.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar óskuðu eftir umræðu um fundarstjórn forseta eftir óundirbúnum fyrirspurnartíma lauk.  Þingmönnum stjórnarandstöðunnar hefur verið heitt í hamsi og sent stjórnarliðum og ráðherrum ríkisstjórnarinnar tóninn.

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, gagnrýndi ummæli sem höfð hefðu verið eftir ráðherrum ríkisstjórnarinnar um að kosning um þingsályktunina 2009 - þar sem Alþingi samþykkti að sækja um aðild að ESB - hefði verið þvinguð. „Þetta er svívirðileg söguskoðun. Það ber að virða þær kosningar og ef við ætlum ekki að virða þær þá erum við að grafa undan lögum, þingsályktunum og þingræðinu í þessu landi.“

Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, sagðist vera sleginn og vera í áfalli. „Það þingræði og lýðræði sem ég hélt að við byggjum við er ekki til staðar. Það hefur verið staðfest af hverjum ráðherranum af fætur öðrum og hverjum stjórnarliðanum af fætur öðrum undir umræðunum sem hér áttu sér stað.“ Birgitta spurði hvort við byggjum við „lýðræði eða gerræði.“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, var fyrsti stjórnarliðinn sem kom upp í ræðustól undir þessum lið. Hann sagðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum hvernig reyndir þingmenn töluðu um stöðu þingsályktana. „Það er reyndar ekki nýtt af nálini að stjórnarandstaðan noti þennan lið fundarstjórn forseta til að ræða um Evrópumálin.“

Hann gagnrýndi framgöngu stjórnarandstöðunnar þegar þingsályktun Gunnar Braga var tekin fyrir í þinginu á síðasta ári - upplýsti þingheim um hversu margar ræður hún hefði flutt undir þessum lið. „Allt var gert til að tefja fyrir málið.“

Bjarni sagðist vilja vekja athygli á því lögfræðilega áliti sem öllum þingflokksformönnum hefði verið sent - þetta væri óskaplega skýrt. „Meirihlutinn ræður.“

Talsverður kliður fór um þingheim við þessi orð Bjarna. Birgitta Jónsdóttir sagði að núverandi ríkisstjórn, margir þingmenn meirhlutans líta svo á að ríkisstjórnin geti bara gert það sem henni sýnist. Bjarni Benediktsson segir að meirihlutinn ráði. Birgitta segir að með því hafi fengist staðfest að ekki ríki þingræði heldur meirihlutaræði „Þá skulið þið bara eiga þetta,“ sagði Birgitta.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
ragnhildurth's picture
Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV