Ósáttir við Strætó og aka ekki meira í dag

03.02.2015 - 13:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Níu leigubílstjórar í ferðaþjónustu fatlaðra á vegum Strætó hafa tilkynnt að þeir ætli ekki að aka fleiri ferðir það sem eftir lifir dags. Framkvæmdastjóri Strætó kveðst vita af óánægju bílstjóra en segist ekki vita hvers vegna þeir aka ekki meira í dag.

Samkvæmt heimildum fréttastofu ætla leigubílstjórnarnir á vegum ferðaþjónustu fatlaðra ekki að aka meira í dag í mótmælaskyni. Þeir eru mjög óánægðir með greiðslur frá Strætó fyrir janúar.

Jóhannes Svavar Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó staðfestir að níu bílstjórar ætli ekki að fara fleiri ferðir í dag en segir að sér sé ekki kunnugt um ástæður þess. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að fleiri bílstjórar séu mjög óánægðir.

Jóhannes kveðst þó vita af óánægju hjá hópi bílstjóra vegna greiðslna fyrir síðasta mánuð en segir að Strætó hafi staðið við alla samninga. Bílstjórarnir sem ætla að leggja niður störf í dag aka allir leigubílum en ekki sérútbúnum bílum sem geta tekið við hjólastólum. Þeir fá greitt fyrir hverja ferð sem þeir aka og segir Jóhannes að menn hafi líst því að verkefni séu ekki næg til að þetta borgi sig. Bílstjórar eru ósáttir við að fá ekki greitt milli ferða, en þeir þurfi þó að vera til taks ef þeir eru kallaðir í verkefni á vegum ferðaþjónustu fatlaðra.

Jóhannes segir að það hafi ekki áhrif á starfsemi ferðaþjónustunnar að bílstjórnarnir leggi niður störf í dag. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi