Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ósátt við uppsagnir ræstingakvenna

05.11.2014 - 20:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Forstöðumaður kjaramálasviðs Eflingar segir að hagræðing með uppsögnum ræstingakvenna hjá ríkinu felist í að veikindaréttur þeirra og framlag í lífeyrissjóð skerðist. Á móti megi búast við að ríkið þurfi að greiða einhverjum kvennanna atvinnuleysisbætur, þær séu á þeim aldri að hlaupa ekki í vinnu.

Rekstrarfélag Stjórnarráðsins sagði um mánaðamótin upp sautján konum sem störfuðu við ræstingar í fjórum ráðuneytum. Sex konur í þessum hópi eru eldri en sextíu ára og sjö eru á aldrinum 50 til 60 ára. Guðmundur Kjærnested framkvæmdastjóri rekstrarfélagsins segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að uppsagnirnar hafi verið í hagræðingarskyni..

Ræstingarnar verða boðnar út
„Við erum náttúrulega engan veginn sátt með þetta eðlilega, en það er ekki eins og þetta sé í fyrsta sinn sem þetta er að gerast,“ segir Harpa Ólafsdóttir, forstöðumaður kjaramálasviðs hjá Eflingu.

Harpa segir að konurnar hafi verið með um 260 þúsund krónur að meðaltali í laun. Margar í 60 til 70 prósent vinnu. Í svari stjórnarráðsins kemur fram að ræstingar í ráðuneytunum verið nú boðnar út. Framvegis verði ræst á daginn og með því náist hagræðing. Í útboðsskilmálum verði gerð sú krafa að sem flestu núverandi starfsfólki verði gefinn kostur á að starfa hjá nýjum rekstraraðila og að laun verði í samræmi við kjarasamninga.

Meiri afköst fyrir lægri laun
Harpa segir að það þýði meiri afköst fyrir lægri laun. „Það er akkúrat það sem blasir við. Síðan erum við að horfa til þess að réttindi fólks munu breytast töluvert við þetta. Bæði veikindaréttur og framlag í lífeyrissjóð, þannig að þeir telja sig spara að einhverju leyti þar. En hins vegar veltum við því fyrir okkur hver er sparnaðurinn í raun, þegar við horfum til þess að einhverjir af þessum einstaklingum munu ekki fá vinnu annars staðar og þá eru það atvinnuleysisbætur sem munu taka við.“

Lítil reisn yfir því að leggja niður láglaunastörf
Ákvörðun rekstrarfélags Stjórnarráðsins að segja upp 17 ræstingakonum var rædd við upphaf fundar á Alþingi í dag. Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna, sagði varla um stórmannlega ákvörðun að ræða, um sé að ræða lægst launuðu konurnar sem vilja vinna en endi hugsanlega á atvinnuleysisbótum. „Það er lítil reisn yfir svona aðgerðum og ótrúlegt á sama tíma og ríkisstjórnin vill ekki framlengja auðlegðarskattinn eða fá aukna greiðslu fyrir afnot á sameign þjóðarinnar, sjávarauðlindinni, nei, þá skulum við frekar leggja niður láglaunakvennastörf.“

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, tók undir með Bjarkeyju og hann sagðist treysta „á það að sú umræða sem skapast hafi um uppsagnir ræstingarkvenna hjá Stjórnarráðinu verði til þess að þau áform verði endurskoðuð og að þessum konum bjóðist áfram þau störf og þau starfskjör sem þær hafi haft en þær verði ekki einkavæddar.“

Engum sagt upp í forsætisráðuneyti
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í samtali við fréttastofu nú síðdegis að engu ræstingafólki hefði verið sagt upp í forsætisráðuneytinu og það stæði ekki til. Ráðuneytin sem um ræðir eru fjármála-, innanríkis-, umhverfis- og menntamálaráðuneyti.