Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Ósátt við breyttan Fríkirkjuveg

01.02.2012 - 18:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Fríkirkjuvegi 11 verður skipt í íbúð og veislusal ef áform Björgólfs Thor ganga eftir. Húsafriðunarnefnd telur að breytingarnar rýri gildi hússins mjög mikið, og vill friða það að innan.

Það hefur gustað um Fríkirkjuveg 11 frá því að Björgólfur Thor festi kaup á húsinu árið 2008. Hann vill breyta því á ýmsa lund, og nú í síðasta mánuði lagði arkitekt hans fram beiðni til húsafriðunarnefndar um breytingar á innra byrði hússins. Minnihluti nefndarinnar var viðstaddur þegar fjallað var um beiðnina, en leist ekki vel á hana.

„Þetta felst í því að skipta húsinu upp í tvö notkunarrými, annars vegar fyrir almenning og hins vegar íbúð. Þetta telja þeir fara illa saman í húsinu og vilja slíta eins mikið á milli og hægt er. Og þar með eru gerðar breytingar á húsinu sem við teljum rýra gildi þess mjög mikið,“ segir Nikulás Úlfar Másson, forstöðumaður Húsafriðunarnefndar.

Íbúðin á efstu hæð yrði vegleg, með sérstöku fataherbergi og barnfóstruherbergi. Stigaopi á ganginum yrði lokað, og stiginn fluttur niður um eina hæð. „Þarna er um að ræða eitt best varðveitta og fallegasta stigarými sem við eigum á þessu landi,“ segir Nikulás Úlfar.

Á miðhæðinni yrðu veislu- og fundarsalir, með lyftu niður í sýningarsal í kjallaranum. Ásgeir Ásgeirsson, sem teiknaði tillögurnar, kveðst hissa á viðbrögðum húsafriðunarnefndar. Teikningarnar hafi verið lagðar fram til þess að hafa nefndina með í ráðum. Áhersla hafi verið lögð á að viðhalda upprunalegu útliti hússins, og varðveita loftin og handmálaðan panel á veggjum. Húsafriðunarnefnd frestaði afgreiðslu málsins í síðustu viku og hyggst taka það fyrir á næsta fundi.