Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ósammála um mikilvægi „Alþingisleiðarinnar“

Mynd:  / 
Alþingisleiðin hefur verið gagnrýnd, til dæmis talað um að fjölskyldur sem hafa verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum fái frekar ríkisborgararétt en aðrar sem minna hefur borið á, afreksíþróttamenn frekar en aðrir, frægir eins og Bobby Fischer. En þetta hefur samt sem áður verið sú leið, sem þeir sem ekki hafa  passað inn í rammann sem lögin setja hafa getað farið, þeir sem hafa fallið milli skips og bryggju í kerfinu. Nú vill dómsmálaráðherra breyta lögum um ríkisborgararétt.

Framkvæmdin sögð úr skorðum

„Framkvæmd laga um íslenskan ríkisborgararétt hefur að ýmsu leyti gengið úr skorðum og færst frá tilgangi laganna.“ Þetta er mat dómsmálaráðherra sem hyggst leggja fram frumvarp til breytingar á lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Lagt er til að Útlendingastofnun sjái alfarið um að afgreiða umsóknir um íslenskan ríkisborgararétt og ekki verði hægt að leita til Alþingis um afgreiðslu þeirra. Hingað til hefur verið hefð fyrir því að Alþingi afgreiði slíkar umsóknir tvisvar á ári í sérstakri undirnefnd Allsherjar- og menntamálanefndar. 

Telur þrengt að getu fólks til að fá ríkisborgararétt

Claudie Wilson, lögmaður á lögmannsstofunni Rétti, telur að með fyrirhugaðri lagabreytingu, og öðrum sem eru lagðar til í frumvarpsdrögunum, vilji stjórnvöld þrengja mjög að getu fólks af erlendum uppruna til að fá hér ríkisborgararétt. 

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, og Claudie Wilson, lögmaður ræddu málið í Speglinum. Hlýða má á viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV