Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Öryrkjar stærsti hópur þeirra sem sækja um aðstoð

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Öryrkjar eru stærsti hópur þeirra sem sækja um jólaaðstoð á Eyjafjarðarsvæðinu fyrir þessi jól. Um 12 milljónir króna þarf til að veita öllum aðstoð sem þess óska.

Mæðrastyrksnefnd, Rauði Krossinn, Hertex og Hjálparstarf kirkjunnar hafa síðustu ár aðstoðað efnaminni fjölskyldur og einstaklinga á Eyjafjarðarsvæðinu fyrir jólin. Frestur til að sækja um aðstoð rann út nú á hádegi og hafa sjálfboðaliðar haft nóg að gera við að taka við beiðnum síðustu daga.

Sigríður Magnea Jóhannsdóttir, formaður jólaaðstoðarinnar í ár sagði í samtali við fréttastofu í morgun að það væri verið að taka niður í viðtalstíma sem færu fram í næstu viku. Eins og staðan væri liti út fyrir að öll pláss væru að fyllast. Hún segir að umsækjendur í ár séu ekki færri en í fyrra. Þá fengu 309 fjölskyldur aðstoð.

Treysta á fjölskyldur og einstaklinga

Hún vonast til að það verði hægt að hjálpa öllum sem þurfa. Þau treysti á fyrirtæki og einstaklinga til að aðstoða því það þurfi á milli 11-12 milljónir í þessar úthlutanir. Sigríður segir öryrkja vera stærsta hóp þeirra sem sæki um aðstoð líkt og í fyrra. 

Stefnan síðustu ár hefur verið að veita mataraðstoð með gjafakortum í matvörubúðir. Þá eru gefin gjafabréf í upplifun þar sem það sé eitt það fyrsta sem fólk sleppir. Að þessu sinni eru það bíómiðar fyrir alla fjölskylduna, popp og kók.