Öryrkjar gætu þurft að bíða lengi

02.05.2019 - 17:05
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Formaður velferðarnefndar Alþingis segir að það eigi að leiðrétta strax skertar bætur til öryrkja sem hafa búið í öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu. Hins vegar er útlit fyrir að bæturnar verði ekki greiddar fyrr en seint á næsta ári.

Þó að umboðsmaður Alþingis hafi í júní í fyrra komist að því að svokallaðar búsetuskerðingar vegna örorkugreiðslna til öryrkja standist ekki lög var það ekki fyrr en í desember 2018 sem velferðarráðuneytið, nú félagsmálaráðuneyti, fól Tryggingastofnun að  endurreikna greiðslur til öryrkja sem höfðu fengið skertar greiðslur vegna búsetu í öðru EES-ríki. Þá strax var upplýst að 1.025 manns gætu átt rétt á leiðréttingu, nýrri tölur benda til þess að talan sé aðeins hærri eða um 1.070 manns. Í bréfi ráðuneytisins til velferðarnefndar Alþingis kom fram að stefnt væri að því að greiða fjögur ár aftur í tímann sem samanlagt gæti numið um tveimur milljörðum króna. Rökin fyrir að greiða aðeins fjögur ár voru studd með reglum um fyrningar. Öryrkjabandalagið telur hins vegar að leiðrétta eigi 10 ár aftur í tímann eða frá þeim tíma sem bandalagið telur að byrjað hafi verið að skerða bætur vegna búsetu í öðru eða öðrum löndum.   

Ummæli ráðherra stangast á

Einnig hefur verið óljóst hvort greiðslur dragist á langinn vegna þess að ekki séu fjárheimildir fyrir þeim. Ummæli fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra stangast á.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, svaraði því nokkuð skýrt vegna fyrirspurnar 1. apríl þegar Guðmundur Ingi Kristinsson spurði hann út í málið, að það strandaði ekki á fjárheimildum.

Hafi verið brotinn réttur á fólki þá verður ekki spurt um það hvort að fjárheimildir séu til staðar til þess að leiðrétta það.

Og ráðherra sagði líka þetta:  

Þetta mál strandar ekkert á fjárheimildum. Það gerist reglulega að ríkið fær á sig kröfur sem ekki var gert ráð fyrir. Þær geta til dæmis verið teknar úr varasjóði. Sá sjóður stendur undir greiðslum sem þessum. En við þurfum auðvitað að fá botn í það hver er rétt greiðsla.

Hins vegar fékk Guðmundur Ingi annað svar frá Ásmundi Einari Daðasyni, félagsmálaráðherra:

Við þurfum að afla okkur fjárheimilda og vera viss um að greiðslurnar rúmist innan þess fjárramma sem ráðuneytið hefur.

 

Á mánudag fékk Öryrkjabandalagið svar frá Tryggingastofnun um gang málsins. Þar sagði:

„Aðgerðaáætlun liggur fyrir, en nýtt verklag hefur ekki tekið gildi þar sem stofnunin bíður fjárheimildar vegna breyttrar framkvæmdar."

Biðin gæti orðið löng

Hér er ekki verið að tala um fjárheimild til að sinna greiðslum heldur auka fjárheimild til að sinna verki sem gæti samkvæmt verkáætluninni, sem kynnt var í febrúar, tekið langað tíma. Í áætluninni kemur meðal annars fram að hafa verði samband við tryggingastofnanir í þeim löndum sem viðkomandi kann að hafa fengið greiðslur frá eða eiga rétt á greiðslum frá, til að geta reiknað endanlega skerðingarupphæð út. Það geti tekið 6 til 18 mánuði. Það þýðir með öðrum orðum að svo gæti farið að greiðslur berist ekki fyrr en seint á næsta ári.

Vill að gert verði upp við öryrkja strax

Velferðarnefnd Alþingis hefur óskað eftir öllum skriflegum samskiptum fjármála- og félagsmálaráðuneytis til að reyna glöggva sig á hvað sé rétt í málinu hvað varðar fjárheimildir eða ekki fjárheimildir. Halldóra Mogensen, formaður nefndarinnar segir að það eigi að leiðrétta skerðinguna strax.

„Mér finnst þetta mjög furðulegt. Í raun furðuleg afstaða hjá félags- og barnamálaráðherra að halda því fram að það þurfi einhverjar sérstakar fjárheimildir til að greiða örorkulífeyrisþegum rétt til framtíðar þegar um er að ræða skyldu samkvæmt lögum," segir Halldóra.

Samkvæmt svörum Tryggingastofnunar mun útreikningur á leiðréttum bótum taka langan tíma. Leita þurfi upplýsinga í útlöndum, reikna út og loks hefur viðkomandi andmælarétt. Halldóra segir að könnun á réttindum erlendis eigi ekki að stöðva leiðréttinguna hér heima.

„Tryggingastofnun er með allar upplýsingar sem hún þarf til að greiða samkvæmt lögum. Hún er með upplýsingar um búsetu, kennitölu, gildistíma allra örorkumata, skattframtöl og staðgreiðsluskrá og allt sem þarf til að greiða. Ef í einhverjum tilfellum verður ofgreitt þá á bara að gera það upp eftir á eins og tíðkast í svona málum," segir Halldóra.

Nánar er fjallað um þetta mál í Speglinum.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi