Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Öryggi mikilvægt í fjarheilbrigðisþjónustu

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Ingi Steinar Ingason, teymisstjóri hjá Landlæknisembættinu segir Íslendinga ekki komna jafn langt og önnur lönd í þróun fjarheilbrigðisþjónustu, sem er ein af aðgerðum byggðaáætlunar til næstu fimm ára. Markmiðið sé að jafna aðgengi að heilsugæsluþjónustu.

„Stærsta vandamálið hjá okkur er aðgengi að sérfræðiþjónustu. Flestir sérfræðilæknar eru hérna á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ingi Steinar í Morgunútvarpinu á Rás 2. 

Er verið að einblína á einhverja sérstaka hópa? „Það er fyrst og fremst verið að tala um langtímasjúkdóma. Stór hluti að viðtölum í dag hjá sérfræðingum eru bara tvær mínútur. Fólk keyrir kannski í 500 kílómetra fyrir það. Í staðinn gæti það farið á sína heilsugæslustöð þar sem eru tekin sýni og svo spjallað við lækninn í gegnum svona fjarheilbrigðislausn,“ segir Ingi Steinar og vísar í viðtöl í gegnum síma eða tölvu. 

Myndviðtölin þurfa þó að uppfylla skilyrði um persónuvernd. „Landlæknir er nýbúinn að gefa út fyrirmæli um öryggi í fjarheilbrigðisþjónustu. Sem eru þá leiðbeiningar bæði fyrir þá sem veita heilbrigðisþjónustu og fyrirtæki sem eru að þróa lausnir fyrir hana.“ 

Á morgun verður fundur í Norræna húsinu þar sem farið verður yfir tilraunaverkefni sem ljósmóðir á Kirkjubæjarklaustri hefur haldið úti. Ingi segir að mikið sé lagt upp úr öryggi. „Þetta er mjög flókið verkefni. Þú getur væntanlega ekki gert mjög flókna skoðun ef þú ert með farsímann einhvers staðar heima uppi í rúmi. Þessar lausnir myndu þá vera á minni heilbrigðisstofnunum,“ segir Ingi Steinar.

Ingi segir jafnframt að leiðirnar að fjarheilbrigðisþjónustu séu tvær. „Að þú farir á litla heilsugæslustöð í þínum smábæ þar sem þú býrð. Þar sem þú hittir heilbrigðisstarfsmann sem getur þá tengt þig við alls konar græjur til að taka hjartalínurit eða blóðþrýsting, og þú ert þá að tala við lækni sem er einhvers staðar annars staðar.“ 

„Hins vegar erum við að tala um þar sem þú ert bara heima. Yfirleitt erum við að tala um myndviðtöl þar sem þú ert með síma með myndavél og ert þá bara í viðtali við lækni án þess að þurfa að keyra 100-200 kílómetra. Þú þarft þá í rauninni ekki að fara á næstu heilbrigðisstofnun,“ segir Ingi Steinar.

En þetta eigi ekki síður við á höfuðborgarsvæðinu, þetta sé framlenging á heilsugæslustöðvum. „Þar sem þú ert kannski í vinnu upp á Höfða en býrð á Seltjarnarnesi og það getur tekið þig hálftíma að keyra á heilsugæslustöðina þína.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV