Öryggi landsmanna ekki stefnt í hættu

29.08.2013 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Þótt Reykjavíkurflugvöllur verði færður úr Vatnsmýri verður öryggi landsmanna ekki stefnt í hættu. Þetta er mat Jóns Gnarr borgarstjóra. Hann segist vilja finna lausn sem sé viðunandi fyrir alla.

Rétt tæplega 60.000 manns hafa nú skrifað undir lista á netinu þar sem þeir lýsa þeirri skoðun að Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera áfram í Vatnsmýri. Borgaryfirvöld hafa hins vegar lýst því yfir að flugvöllurinn verði færður. Jón Gnarr borgarstjóri segir of snemmt að segja til um hvort undirskriftirnar muni hafa einhver áhrif á ákvarðanir borgaryfirvalda. Hann segir það einföldun að að staðsetning flugvallarins hafi bjargað mannslífum.

„Það eru engar áætlanir um það, hjá yfirvöldum í Reykjavík, að setja öryggi eða heilsu landsmanna í einhverja hættu", segir borgarstjóri. Það verði ekki gert þótt flugvöllurinn verði færður úr Vatnsmýri.

„Það eru svo margar hliðar á þessu máli, það eru öryggissjónarmið, það eru skipulagssjónarmið, það eru tilfinningarök, það eru fjárhagsleg rök og svo framvegis. Síðan má ekki gleyma því að réttur sveitarfélaga, réttur Reykjavíkur til þess að skipuleggja sitt land, er tryggður í stjórnarskrá Íslands".

Nú á innanríkisráðherra í viðræðum við borgaryfirvöld um lausn þessa máls, hvaða hugmyndir eru uppi á borðinu í þeim viðræðum?

„Það get ég nú ekki tjáð mig um að svo stöddu. Ég get staðfest það að við höfum átt í viðræðum, við höfum talað saman og auðvitað viljum við bara finna ásættanlega lausn fyrir alla", segir Jón Gnarr.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi