Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Öryggi barnanna í ólagi við leikskóla

08.01.2019 - 21:58
Mynd með færslu
 Mynd: ?? - wikimedia.org
Lögreglan á Suðurnesjum segir að niðurstöður umferðareftirlits við leikskóla í Reykjanesbæ hafi ekki verið góðar. Verið var að kanna notkun öryggisbúnaðar ökumanna og barna um borð í bílunum á leið í leikskólann. Í ljós kom að allt of margir hafi ekki verið með öryggismálin í lagi.

Frá þessu er greint á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurnesjum í dag. „Of mörg börn voru ekki í bílbeltum eða öðrum viðurkenndum búnaði,“ skrifar lögreglan. „Það að ferðin sé svo stutt eða þá að fólk sé í tímaþröng er óafsakanlegt þegar kemur að öryggi okkar sjálfra og barnanna okkar í umferðinni.“

Lagt er til að allir leggist á eitt og lagi þetta þannig að allir verði með þetta í lagi þegar lögreglan verður með samskonar eftirlit síðar.

„Eitt af stóru verkefnum okkar allra er að koma í veg fyrir slysin,“ skrifar lögreglan að lokum.

Hægt er að lesa hvernig tryggja má öryggi barna í bílum á vef Samgöngustofu.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV