Snæbjörn Brynjarsson skrifar:
Það sem áður var almenningssalerni varð frá fimmtudeginum fjórtánda nóvember til sunnudagsins sautjánda að musteri íslenskrar gjörningalistar þegar hátíðin Safe-Fest tók yfir Núllið Gallerý í Bankastræti. Aðstandendur Safe-Fest voru þau Adolf Smári Unnarsson, Aron Martin Ásgerðarson, Birnir Jón Sigurðsson, Helgi Grímur Hermannsson, Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir og Snæfríður Sól Gunnarsdóttir, öll nýútskrifaðir sviðshöfundar úr Listaháskóla Íslands.
Hrákaslettur á köldu síðdegi
Hátíðin hófst kaldan fimmtudagseftirmiðdag við inngang almenningsklósettsins fyrrverandi þar sem tveggja manna lúðrasveit spilaði, jakkafataklæddur karl hélt ræðu og galaklædd kona klippti rauðan borða. Allt eins og vera skal þegar mikilsverðar listahátíðir hefjast. Salernið var þar með hafið upp úr sínum lágkúrulega uppruna til jafns við sjálft Stjórnarráðið, og kannski var einmitt þessa helgi salernið jafnvel enn helgari reitur en vinnustaður forsætisráðherrans og miðstöð íslenskrar stjórnlistar. Gamla salernið var orðið musteri íslenskrar gjörningalistar í fjóra daga.
Að athöfn lokinni marseruðu gestirnir niður tröppurnar og inn í rými sem var fulllítið fyrir jafnvel þennan fámenna hóp.
Í kjölfarið voru fleiri borðar klipptir, boðið var upp á ódýrt vín og gjörningaveislu. Silfraðir konfettístrimlar úr Partýbúðinni huldu aftasta vegginn og á gólfinu sjálfu var svo hringlaga stöpull. Þegar hersingin kom niður sátu þar fjórir ungir listamenn virðulega til fara og hrækjandi í allar áttir. Bæði sviðsmyndin og gjörningurinn sjálfur sköpuðu hugrenningatengsl hjá gagnrýnanda við verk Ragnars Kjartanssonar, sér í lagi vídjóverk hans Me and My Mother, en áhorfendur fylgdust lotningafullir með hrákunum fljúga þar til stór pollur myndaði hring um stöpulinn og áhorfendur dáðust að því hversu mikið slef mannslíkaminn getur framleitt.
Ósexí en algerlega öruggt
Rýmið í Núllinu er þröngt og það býður því upp á innileika sem svo sannarlega var til staðar. Hljómsveitin Garðkettirnir 2 fluttu þrjú barnalög um ketti í gjörningi sem ætlaði sér að vera hjákátlegur og vandræðalegur, við mikla kátínu gesta. Helgi Grímur og Jökull Smári voru mjög viðkunnalegir þrátt fyrir vísvitandi klunnalegan flutning á sérlega ósexí efni. Dýnamíkin milli þeirra tveggja minnti mig um margt á leikhópinn Kriðpleir en að gjörningnum loknum fór hópurinn í heild upp á stöpulinn í miðju rýminu meðan ein þeirra, Snæfríður Sól flutti ræðu. Þetta var orðavaðall sérskrifaður til að hæðast að formlegheitum í veislum hvort sem þær eru útskriftir, fermingar eða listahátíðir.
Á föstudagskvöldið kom leikhópurinn saman og flutti leiksýninguna Nýjasta síðasta verkið. Það má segja að það hafi verið kjarni hátíðarinnar, því þarna komu saman allir stofnendur hennar í eitt samvinnuverkefni og fluttu röð spunaverka. Á veggnum var hægt að lesa um framvinduna og gestir voru hvattir til að fara inn og út úr rýminu að vild.